
Stríðið á Gaza hefur haft alvarleg áhrif á lífslíkur íbúa svæðisins. Ný gögn frá The Lancet sýna að meðalævi í Gaza hefur hrunið úr 75,5 árum niður í aðeins 40,6 ár, miðað við gögn sem safnað var frá október 2023 til september 2024. Þetta hrikalega hrun í lífslíkum undirstrikar það skelfilega manntjón sem stríðið hefur haft í för með sér, sérstaklega meðal yngri kynslóða sem nú munu aldrei ná efri aldri.
Ógnvænlega há dánartíðni veldur ekki aðeins því að framtíðarkynslóðir eldri borgara hverfa, heldur sundrar hún einnig samfélaginu sem byggir á stuðningi milli kynslóða. Fjölskyldur eru rifnar í sundur, þar sem eldri borgarar missa þá sem annast þá, og langtímaáhrifin munu felast í samfélögum án leiðsagnar, reynslu og stöðugleika sem eldri kynslóðir veita.
Staðreynd sem hvergi er rædd
Norski læknirinn og aðgerðarsinninn Mads Gilbert, sem í áratugi vann á spítölum á Gaza, ræddi um þetta óhugnanlega hrun á lífslíkum í myndskeiði sem birtist á Instagram. Segir hann hrunið sé vegna samblands af árásum Ísraelshers, synjunum á læknaþjónustu fyrir fólk með langvinna, ósmitandi sjúkdóma, hungursneyðinni, skortinum á vatni, og skortinum á hreinlæti. „Þegar allir þessir þættir koma saman, er búið að stela helmingnum af lífslíkum allra sem fæðast og búa á Gaza í dag,“ sagði Mads.
Bætir hann við: „Þetta er næstum því ótrúlegt. Og það er ekkert fjallað um þetta í fjölmiðlum. Þetta er ekki rætt. En þessar tvær staðreyndir, að 41% prósent fleiri eru taldir hafa verið drepnir en opinberar tölur segja, og að lífslíkurnar hafi minnkað um 35 ár á einu ári, eru dæmi um það sem ég kalla „hægfara þjóðamorð Zionista“ gagnvart fólkinu á Gaza. Það er með því að ráðast á heilbrigðisþjónustu, með því að neita sjúkrahúsunum um vatn, mat, rafmagn, eldsneyti og lækningatæki, með því að ráðast á heilbrigðiskerfið og ekki síst með því að gera árásir á heilbrigðisstarfsmenn, heilsugæslurnar og sjúkrabíla.“
Komment