
Ung stúlka sem féll í sjóinn við Reynisfjöru nálægt Vík í Mýrdal fannst látin. Lögreglan á Suðurlandi greinir frá þessu á Facebook. Um var að ræða erlenda fjölskyldu á ferðalagi hérlendis.
Fram kom fyrr í dag að faðir og tvær dætur hefðu hafnað í sjónum, en sú yngri ekki náðst á land. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn og náði að endurheimta stúlkuna úr sjónum.
Í tilkynningu lögreglunnar segir að málið verði rannsakað: „Stúlkan, sem hafnaði í sjónum við Reynisfjöru í dag, var úrskurðuð látin. Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á tildrögum slyssins. Laust fyrir kl. 15 í dag var tilkynnt um slysið en lögregla, sjúkralið, björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar fóru á vettvang. Þyrla Landhelgisgæslunnar fann stúlkuna.“
Þetta er sjötta banaslysið í Reynisfjöru síðasta áratuginn.
Samkvæmt frásögn í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar er annað af tveimur aðvörunarskiltum, sem sýna á hvar hætta sé á ferli í Reynisfjöru, brotið, eftir storm sem gekk yfir fyrir fjórum mánuðum.
Lengi hefur verið rætt um aukinn viðbúnað eða öryggisgæslu í Reynisfjöru.
Landeigendur við Reynisfjöru rukka fyrir bílastæði við fjöruna, en því fylgir ekki nein öryggisgæsla. Þá hefur enn ekki náðst saman um að staðsetja landvörð á vegum ríkisins á staðnum.
Komment