
Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Ian Rush, goðsögn hjá Liverpool, er á batavegi á sjúkrahúsi eftir að hafa verið lagður inn á gjörgæslu í síðustu viku vegna alvarlegra öndunarerfiðleika, sem talið er að tengist svonefndri „ofurflensu“.
Rush, sem er 64 ára, var fluttur á Countess of Chester-sjúkrahúsið samkvæmt Daily Mail. Hann var lagður beint inn á gjörgæsludeild við komu og dvaldi þar í um 48 klukkustundir. Hann er enn á sjúkrahúsinu en líðan hans hefur batnað og er talið líklegt að hann komist heim fyrir jólin.
Samkvæmt heimildum er Rush í „góðu andlegu jafnvægi“ eftir þetta skelfilega atvik. Veikindin eru sögð tengjast útbreiðslu svokallaðrar ofurflensu sem nú gengur yfir England.
Flensa hefur valdið miklu álagi á sjúkrahús víða um land. Að meðaltali voru 2.660 sjúklingar lagðir inn daglega í Englandi í síðustu viku, sem er hæsta tala sem mælst hefur á þessum tíma árs og 55 prósenta aukning frá vikunni þar á undan.
„Þessi fordæmalausa bylgja ofurflensu setur heilbrigðiskerfið í verstu mögulegu stöðu miðað við árstíma,“ sagði Meghana Pandit, yfirmaður lækninga hjá breska heilbrigðiskerfinu NHS, í viðtali við BBC News í þessari viku. Hún sagði fjölda flensusjúklinga á sjúkrahúsum „óeðlilega háan“ og að útlit væri fyrir erfiðar vikur fram undan.
Heilbrigðisráðherrann Wes Streeting sagði í viðtali við LBC á föstudag að ástandið væri „líklega mesta álag sem NHS hefur staðið frammi fyrir síðan á tímum Covid“. Hann varaði jafnframt við „tvöföldu áfalli“, þar sem flensufaraldur fari saman við yfirvofandi verkfall lækna sem hefst 17. desember.
Sérfræðingar segja flensuna hafa komið fyrr en venjulega í ár og vara við nýrri stökkbreyttri útgáfu veirunnar sem reynist erfiðari í meðhöndlun.
Ian Rush er einn besti leikmaður í sögu Liverpool. Hann skoraði 346 mörk fyrir félagið í tveimur hollum þar og er markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Þá lék hann 73 landsleiki fyrir Wales og skoraði í þeim 28 mörk.
Rush var lykilmaður í sigurgöngu Liverpool á níunda áratugnum, þegar liðið vann fimm deildarmeistaratitla, þrjá FA-bikara, fimm deildarbikara og tvo Evrópumeistaratitla. Hann hlaut MBE-orðuna árið 1996 fyrir framlag sitt til knattspyrnu.
Hann starfar enn sem sendiherra Liverpool, sem sigraði Brighton á Anfield í úrvalsdeildinni í dag, 2-0. Auk Liverpool lék Rush meðal annars með Chester City, Juventus, Leeds, Newcastle og Wrexham.

Komment