
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er greint frá því að aðili hafi verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann hafði verið í stympingum við dyraverði í miðbænum. Á lögreglustöð var ákveðið að sleppa manninum þar sem engar kröfur voru á hann frá dyravörðum. Fékk hann að ganga heim á leið með þau fyrirmæli að fara ekki aftur í miðbæinn. Klukkustund síðar mætti hann aftur á lögreglustöðina og reyndi þá að komast inn í húsið frá athafnasvæði lögreglu. Maðurinn var þá handtekinn og vistaður vegna ástands en þá fundust á manninum meint fíkniefni.
Tilkynnt var um æstan aðila í miðbænum. Sá framvísaði ekki skilríkum að kröfu lögreglu, fylgdi svo ekki þeim fyrirmælum sem honum voru gefin og var með fíkniefni í fórum sínum. Hann var vistaður í fangaklefa.
Lögregla rannsakar þá líkamsárás þar sem margir veittust að einum í miðbæ Reykjavíkur. Tveir handteknir voru og vistaðir vegna málsins.
Tilkynnt var um eld í íbúðarhúsnæði. Þar hafði kviknað í einhverju í íbúðinni en málið er í rannsókn. Vel gekk að slökkva eldinn og 20 mínútum eftir að tilkynning barst var tilkynnt um að búið væri að slökkva eldinn.

Komment