
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er greint frá því að óskað hafi verið aðstoðar lögreglu vegna ráns. Þrír karlmenn eru grunaðir um að hafa veist að einum með höggum og spörkum og stolið af honum farsíma. Brotaþoli var fluttur á bráðamóttöku til frekari skoðunar með sjúkrabifreið en áverkar sagðir minni háttar. Lögregla telur sig vita hverjir árásaraðilarnir eru og er málið í rannsókn.
Tilkynnt var um ungmenni að kasta flugeldum í átt að bifreiðum. Lögregla fór á staðinn og ræddi við ungmennin.
Önnur tilkynning barst þar sem aðilar voru sagðir standa á brú yfir umferðaþunga stofnbraut og kasta flugeldum niður á götuna.
Tilkynnt var um innbrot í verslun þar sem munum var stolið. Einn var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna málsins. Málið er í rannsókn.
Einn handtekinn var grunaður um að aka rafhlaupahjóli undir áhrifum áfengis á kyrrstæða bifreið. Umferðaróhappið átti sér stað í viðurvist lögreglumanna sem veittu manninum athygli í eftirlitsferð sinni og horfðu á er hann olli umferðaróhappinu. Hann var látinn laus að lokinni sýnartöku.

Komment