Áhrifavaldurinn og samfélagsmiðlastjarnan Yulia Burtseva er látin.
Samfélagsmiðlastjarnan gekkst undir skurðaðgerð á einkarekinni heilsugæslustöð í Moskvu þann 4. janúar en ástand hennar versnaði hratt í aðgerðinni. Hún var flutt á sjúkrahús skömmu síðar og síðar úrskurðuð látin, að því er rússneski miðillinn MSK1 greinir frá. Þá hefur verið greint frá því að um lýtaaðgerð hafi verið að ræða.
Samkvæmt miðlinum hafa rannsóknaryfirvöld í Moskvu nú hafið sakamálarannsókn og kanna mögulega vanrækslu í tengslum við aðgerðina. Embættismenn segja að fyrirhugað sé að rannsaka málið ítarlega, þar á meðal með krufningu, til að komast að því hvað fór úrskeiðis.
Burtseva bjó í Napólí á Ítalíu með eiginmanni sínum Giuseppe og ungri dóttur þeirra.
Síðasta færsla hennar birtist að morgni aðgerðardagsins, sem var myndband á rússneska samfélagsmiðlinum VK tekið á kaffihúsi í Moskvu, með yfirskriftinni: „Góðan morgun, Moskva.“
Hún var aðeins 38 ára gömul.


Komment