
Maður á sjóbretti var bitinn af hákarli um tvær mílur vestur af Fuerteventura á Kanaríeyjum, samkvæmt frétt frá Antena 3. Atvikið hefur valdið mikilli hræðslu meðal fólks sem stundar vatnaíþróttir og ferðamanna á svæðinu.
Maðurinn var að æfa svonefnt „Downwind foil paddling“, hraðskreiða vatnaíþrótt þar sem svifblað er notað til að svífa yfir yfirborði sjávar. Hákarlinn er sagður hafa fyrst ráðist á brettið hans áður en hann beit manninn í fótinn og olli djúpu sári.

Atvikið átti sér stað síðdegis á sunnudag, rétt undan ströndinni við Los Molinos, vinsælum stað á vesturhluta eyjarinnar. Þrátt fyrir alvarleika bitsins tókst manninum að komast að landi án aðstoðar og er hann ekki í lífshættu.
Að sögn sjónarvotta skapaðist ringulreið á svæðinu þegar fregnir bárust af árásinni, en yfirvöld hafa ekki staðfest hvort gripið verði til aukinna öryggisráðstafana, svo sem lokunar stranda eða aukinnar vöktunar.
Hákarlasýnir eru sjaldgæfar við Kanaríeyjar og árásir mjög fátíðar. Hafnar- og sjávaryfirvöld ítreka þó mikilvægi þess að fólk fari gætilega, fylgist vel með og tilkynni grunsamlegt atferli í sjónum.
Komment