
Í ákæru á hendur Margréti Löf er hún sökuð um að hafa misþyrmt föður sínum og móður allt frá kl. 22:30 fimmtudagskvöldið 10. apríl og fram til kl. 6:39 um föstudagsmorguninn 11. mars en DV greinir frá ákærunni.
Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær
Hans Löf, faðir Margrétar, lést skömmu síðar en í ákærunni er sagt að hann hafi reynt að flýja en örmagnast við það. Í ákærunni er Margrét sögð hafa svipt hann lífi „með höggum og spörkum og öðrum brögðum, gripum, tökum og þrýstings og yfirfærslu á þunga, sem beindust einkum að höfði hans, búk og útlimum.“
Sagt er frá áverkum Hans í ákærunni og stendur að hann hafi hlotið „m.a. mikla og alvarlega áverka á höfði, í formi skráma, sára og marbletta í kringum augun og á ennissvæði, sára og mars á nefinu með undirliggjandi broti í nefbrjóskinu, blæðinga og afmyndana á eyrum, skrámusvæða á kinnum og marbletta og húðblæðinga á vinstri kinninni, sára og slímúðarblæðinga á vörunum og í munnslímhúðinni og marbletts á höku. Á framanverðum hálsi voru skrámusvæði, sem og á hægri og vinstri hlið hálsins, auk marbletta á hálsinum með undirliggjandi mjúkvefjablæðingu, þá hlaut hann mjúkvefjablæðingu aðliggjandi barkakýlinu, og efst í höfuðlöngum. Á handleggjum beggja handa voru skrámur og marblettir, þá voru marblettir á hægri þumal- og vísifingri. Mar á hægra læri og á hnénu. Stórt mar á vinstri mjöðm og niður á vinstra læri með undirliggjandi miklum margúl og marbletta á vinstra læri, hnénu og fótleggnum. Á bolnum hlaut hann fjölda og djúpa marbletti, ásamt drjúgum djúpum blæðingum í mjúkvef kviðarins og mjaðmagrindarinnar og mjúkvefjablæðingar í lendhryggnum. Fjölda rifbeinsbrota sem mynduðu brotakerfi neðarlega í aftanverðri brjóstgrindinni beggja vegna, brot í hægri þverindi fyrsta lendarhryggjarliðsins, blæðingu í lungnavefinn beggja vegna og blæðingar yst og ofarlega á hægri hlið hjartans og blæðingar í lifravefinn.“
Margrét er einnig ákærð fyrir að hafa reynt að bana móður sinni en hún neitar sök í málinu. Ekki liggur fyrir hvenær aðalmeðferð fer fram en þinghald í málinu er lokað.
Komment