
Birna Dögg Elenorudóttir leitar nú til almennings eftir upplýsingum um alvarlegt umferðarslys sem varð snemma morguns í Hafnarfirði í fyrradag, miðvikudaginn 15. janúar, þar sem rúta keyrði á bíl unnusta hennar, Matthíasar Karls Arnarsonar, og ók síðan af vettvangi.
Í Facebook-færslu lýsir Birna atvikinu og biður fólk um aðstoð:
„SOS! Þurfum hjálp almennings ❤️“
Hún segir mann sinn hafa verið á leið til vinnu frá Reykjavík til Keflavíkur þegar slysið varð.
„Í gær var maðurinn minn að keyra í vinnuna snemma morguns frá Reykjavík til Keflavíkur og í Hafnarfirði rétt hjá völlunum er hann að keyra á vinstri akrein þegar rúta keyrði á hann og kremur hann upp við veggriðið og keyrir burt!“
Að sögn Birnu hefur rútan ekki fundist og tjónið er mikið.
„Rútan hefur ekki fundist og bíllinn er líklegast ónýtur. Bíll sem hann er nýbúinn að fjárfesta í.“
Hún segir fjölskylduna reiða sig á bílinn í daglegu lífi, þar sem eiginmaður hennar keyri daglega milli Reykjavíkur og Keflavíkur vegna vinnu og barna.
„Hann keyrir daglega til og frá Keflavíkur vegna vinnu og barna og getur því ekki verið bíllaus.“
Birna gagnrýnir jafnframt tryggingakerfið harðlega og segir tryggingafélagið hafna aðstoð þar sem ekki náðist að skrá bílnúmer rútunnar.
„En okkar æðislega land! Sem lætur okkur borga himinháar tryggingar neita að hjálpa okkur þar sem við náðum ekki bíllnúmerinu á rútunni! Hættum að borga tryggingar? Til hvers? Skíta land.“
Hún greinir frá því að slysið hafi átt sér stað á bilinu klukkan 07:15 til 07:20 að morgni dags.
„Anywho! Þetta gerðist um 07:15–07:20 í gær 15.01.26 og rútan er líklegast vel tjónuð bílstjóramegin að aftan!! Bíllinn er brúnn svo það líklegast sést!“
Að lokum hvetur Birna fólk til að hafa augun opin og koma upplýsingum á framfæri.
„PLÍS HAFIÐ AUGUN OPIN OG HJÁLPIÐ OKKUR ❤️“
Í samtali við Mannlíf segir Birna Dögg að maðurinn hennar líði ágætlega núna en að þetta hafi verið mikið áfall og að hún merki smá áfallasteituröskun hjá honum.
„Hann er ágætur, en þetta var rosalegt sjokk enda var rútan á miklum hraða og ég finn fyrir smá PTSD viðbrögðum frá honum eftir þetta þegar við erum að keyra í umferðinni.“
Þá segir hún að þetta hefði getað orðið dauðaslys, þar sem rútan stoppaði ekki.
„Mest af öllu að okkur þykir það rosa sorglegt að rútan stoppaði ekki því þarna hefði þetta geta orðið dauðaslys, hann lá á flautunni en rútan hélt áfram.“
Birna segist hafa sent tölvupóst á flest rútufélög á svæðinu en hefur aðeins fengið svar frá tveimur þeirra. Einnig höfðu þau samband við lögregluna sem tók af þeim skýrslu.
„Ég er búin að senda tölvupóst á flest öll rútufélög og staði sem mig dettur í hug, hef fengið svar frá tveimur, fjölskyldan mín stökk til og lá yfir rútum á Keflavíkurflugvelli í gær og við á BSÍ, löggan mætti á svæðið og tók skýrslu og lofaði að þau myndu rannsaka þetta og leita af rútunni, höfum ekkert heyrt frá löggunni meira um það.“
Fólk sem telur sig hafa orðið vitni að atvikinu eða séð skemmda rútu á svæðinu á umræddum tíma er hvatt til að hafa samband við hlutaðeigandi aðila.

Komment