
Jón Gnarr segir löngu tímabært að gera veðmálastarfsemi lögmæta og eftirlitsskylda í stað þess að reyna að banna hana. Hann segir boð og bönn ekki réttu leiðina og hvetur til fræðslu fremur en hræðslu.
„Mér finnst löngu tímabært að hætta að banna veðmálastarfsemi. Við ættum frekar að gera þetta að lögmætri en leyfisskyldri iðju sem sætti eftirliti og greiddi skatta og gjöld til samfélagsins,“ skrifar Jón á Facebook.
Hann bendir á að bann við netveðmálum sé marklaust.
„Það mun aldrei hafa erindi sem erfiði að reyna að banna veðmálastarfsemi á netinu,“ segir hann.
Jón leggur þó áherslu á að hann geri sér grein fyrir þeim vanda sem spilafíkn er.
„Ég er með þessu alls ekki að gera lítið úr þeim alvarlega vanda sem spilafíkn er. En boð og bönn eru ekki rétta leiðin,“ skrifar hann og ber málið saman við aðrar tilraunir til að banna hegðun eða vímuefni.
„Stríðið gegn fíkniefnum í Bandaríkjunum hefur verið óhemjudýrt, kostað endalausa harmleiki og dauðsföll og alls ekki dregið úr magni fíkniefna í umferð. Bjórbann hér og ströng áfengisstefna hefur líka skilað umdeildum árangri,“ segir Jón og bætir að lokum við:
„Fræðsla er betri en hræðsla.“
Komment