
Hin margverðlaunaða blaðakona Bisan Owda, sem er býr á Gaza, birti tilfinningaþrungið myndskeið á Instagram þar sem hún lýsir lífshættulegum aðstæðum almennra borgara á svæðinu, þrátt fyrir fullyrðingar víða um heim um að hernaðinum sé lokið.
Í myndskeiðinu segir Bisan frá atviki sem átti sér stað aðeins hálftíma áður en hún tók upp myndskeiðið. Hún lýsir miklum hávaða sem minnti á sprengingu og síðan örvæntingarfullum öskrum ungs manns sem kallaði á foreldra sína þegar nágrannar flykktust að í myrkrinu.
„Ég er að tala til ykkar frá Gaza, þar sem það eru milljón ástæður til að deyja og engin til að lifa af. Fyrir um það bil þrjátíu mínútum heyrði ég rosalegan hvell, eins og sprengingu. Síðan heyrðist ungur maður öskra, kalla á föður sinn, móður sína, nöfn … og allt hverfið fór að safnast saman og öskra líka. Í myrkrinu sá ég aðeins ljósin frá farsímum fólksins, rykið og rústirnar í kringum þau.“
Hún segir að um hafi verið að ræða húsþak sem hrundi vegna óveðurs, en ekki árásar. Vindur hafi verið um 60 kílómetrar á klukkustund og mikil rigning, sem hafi orðið til þess að hluti af fimm hæða byggingu sem þegar var illa farin hafi fallið ofan á húsið þar sem fólk svaf.
„Vegna vindsins og vatnsveðursins féll loft eða þak úr nálægri byggingu sem hafði þegar orðið fyrir skemmdum, ofan á heimilið sem þau voru að sofa í. Þetta er ekki í fyrsta skipti. Þetta hefur gerst aftur og aftur síðustu fimm vikurnar. Ekki bara með hús heldur líka með tjöld.“
Bisan segir að á einni klukkustund hafi fjögur hús hrunið á Gaza og að í flestum þeirra hafi fólk verið inni.
„Á síðustu einni klukkustund hrundu fjögur heimili. Fjögur heimili á einni klukkustund. Flest þeirra með fólki inni.“
Hún beinir orðum sínum að alþjóðasamfélaginu og gagnrýnir þá mynd sem dregin sé upp af því að átökum sé lokið.
„Þetta myndskeið er fyrir heiminn fyrir utan, sem heldur að Ísrael hafi hætt þjóðarmorði sínu og að allt sé búið. Ekkert er búið fyrr en þetta fólk er öruggt.“
Bisan segir Ísrael koma í veg fyrir að nauðsynleg verkfæri berist inn á Gaza, ekki aðeins til enduruppbyggingar heldur einnig til einfaldra viðgerða sem gætu bjargað mannslífum.
„Ísrael kemur í veg fyrir að verkfæri berist inn á Gaza. Það er ekki bara verið að koma í veg fyrir að enduruppbygging hefjist, heldur líka verkfæri sem þarf til að laga hluti, til að styrkja veggi svo fólk geti einfaldlega lifað af næturnar.“
Hún lýsir djúpri vonleysiskennd og upplifun af því að líf Palestínumanna sé metið lítils virði.
„Ég get bara ekki trúað því að líf okkar sé svona ódýrt. Líf okkar er svo ódýrt. Þessi heimur er ekki fyrir okkur. Hann er ekki fyrir fólk sem getur ekki keypt sér höll þegar það missir heimili sitt. Þessi heimur er ekki okkar.“
Í lokin rifjar hún upp umfang eyðileggingarinnar undanfarna mánuði og spyr hvenær þessu muni ljúka.
„Á undanförnum vikum hafa yfir þúsund tjöld verið eyðilögð, flætt eða rifin í sundur, og tugir heimila hrunið ofan á fólkið sem bjó í þeim. Hvenær á þessu að ljúka?“
Myndskeið Bisan Owda hefur vakið sterk viðbrögð á samfélagsmiðlum og er enn ein áminning um að mannúðarástandið á Gaza er áfram afar alvarlegt, þrátt fyrir pólitískar yfirlýsingar um hið gagnstæða.

Komment