Ýmis mál komu til kasta lögreglu í gærkvöldi og í nótt, þar á meðal handtökur, kærur vegna umferðarlagabrota og minniháttar eldsvoði.
Karlmaður var handtekinn grunaður um ölvunarakstur. Málið var afgreitt samkvæmt hefðbundnu ferli og er til rannsóknar.
Þá var erlendur karlmaður handtekinn grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna, auk þess sem hann er grunaður um ólöglega dvöl í landinu. Hann var vistaður í fangaklefa að lokinni handtöku.
Annar karlmaður var kærður fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti. Reyndi hann að skipta um sæti við farþega í bifreiðinni þegar lögregla stöðvaði ökutækið, en tilraunin bar ekki árangur þar sem slíkt athæfi þykir augljóst.
Lögregla sinnti einnig útkalli vegna elds í ruslagámi. Eldurinn var slökktur og engin slys urðu á fólki. Orsök eldsins er ókunn að svo stöddu.
Karlmaður var jafnframt handtekinn grunaður um líkamsárás og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Sá reyndi að hlaupa frá lögreglumönnum, en flóttinn bar ekki árangur og var hann vistaður í fangaklefa.


Komment