
Lögreglan í Cheshire í Bretlandi hefur fundið lík í tengslum við leitina að Rachel Booth, 38 ára móður þriggja barna, sem hvarf sporlaust um klukkan 3:50 aðfararnótt laugardags.
Rachel sást síðast kaupa vín og mjólk á bensínstöð við A556, eftir að hafa hlaupið í um 45 mínútur. Mikil leit stóð yfir í kjölfarið, þar sem lögreglan beitti köfurum og leitarhundum til að reyna að finna hana.
Lögreglan greindi nú frá því að lík hafi fundist í vatni í Oakmere. Formleg kennsl hefur ekki átt sér stað, en talið er að um sé að ræða Rachel. Aðstandendur hennar hafa verið látnir vita og fá nú aðstoð frá sérþjálfuðum lögreglumönnum. Þeir hafa beðið um frið á þessum erfiðu tímum.
Lögreglan telur að ekkert saknæmt hafi átt sér stað og málið verður nú sent til réttarmeinafræðings.
Fjölskylda Rachel sá hana síðast aðfaranótt laugardags í Barnton-hverfinu í Northwich. Um kl. 3:50 er svo staðfest að hún hafi verið á bensínstöð á A556, þar sem hún keypti mjólk og vín. Bensínstöðvarstarfsmaðurinn Isaac Carolan, 19 ára, sagði við The Sun að Rachel hafi komið þangað eftir 45 mínútna hlaup. „En hún virtist ekki vera óróleg eða ringluð,“ bætti hann við.
Á laugardagskvöld staðfesti lögreglan að verið væri að framkvæma rannsóknir í Oakmere, nærri Delamere Forest, og á nærliggjandi svæðum. Áður en líkið fannst sagði yfirmaður rannsóknarinnar, Paul Hughes yfirlögregluþjónn:
„Við höfum áhyggjur af velferð Rachel og fylgjum nú eftir ýmsum vísbendingum. Leitarlið okkar, með hjálp kafara og björgunarsveita, eru að vinna í Oakmere og nærliggjandi svæðum, þar sem talið er að Rachel hafi haldið til.“
Rachel er lýst sem 175 cm hárri, grannri, með ljóst hár og var í svörtum legghlífum og svörtum topp. Henni hefur verið lýst sem „yndislegri“ móður úr Barnton. Raj Kaur, nágranni hennar, sagði við The Sun: „Hún er klár, mjög virk og einstaklega góð manneskja.“
Önnur móðir bætti við: „Ég þekkti hana frá skólanum, hún var alltaf ljúf. Hún á þrjá stráka í skólanum.“
Komment