
Myndband hefur verið birt á samfélagsmiðlum af slysinu sem varð í Reynisfjöru í dag þegar fjölskylda fór í sjóinn.

Með myndbandinu er varað við hættulegum aðstæðum í Reynisfjöru. Þá segir sá sem hleður upp myndbandinu að björgunaraðgerðir séu yfirstandandi. „Varist öldurnar. Barnið barst út með straumnum.“
Á myndbandinu sést fólk í ráðaleysi með björgunarhring horfa á atburðarásina. Þá tekur sýnilega einn þeirra myndband. Þar sést barnið berast með öldunum.
Barnið hafði lent í sjónum ásamt föður og eldri systur. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang og náði björgunarfólk barninu upp úr sjónum. Hún var úrskurðuð látin.
Maðurinn sem birtir myndbandið er pólskur og heldur úti síðum á Youtube, Instagram og TikTok. Ef marka má síðu hans á Instagram hefur hann verið á ferðalagi um Ísland síðustu daga. Hann hefur birt myndbandið bæði á Instagram og TikTok.
Myndbandið vekur óhug og verður ekki birt hér.
Þetta er sjötta banaslysið í Reynisfjöru á einum áratug.
Komment