Illugi Jökulsson, rithöfundur og fjölmiðlamaður, varar við ásækni bandarískra stjórnvalda í Grænland og segir að málið snúist ekki um öryggishagsmuni heldur yfirráð og auðlindir.
Í færslu á Facebook segir Illugi að fullyrðingar Bandaríkjamanna um að þeir „þurfi Grænland“ til að tryggja eigið öryggi standist ekki skoðun. Að hans mati geti Bandaríkin gætt allra sinna öryggishagsmuna á svæðinu án þess að taka yfir eyjuna.
„Bandaríkjamenn þykjast „þurfa Grænland“ til að vernda öryggi sitt. Það er þó deginum ljósara að allra sinna öryggishagsmuna á svæðinu geta þeir gætt án þess að „taka yfir“ Grænland,“ skrifar Illugi.
Hann bendir jafnframt á að bæði Danir og Grænlendingar myndu að hans mati sýna samstarfsvilja varðandi aukinn varnarmátt á eyjunni.
„Bæði Danir og Grænlendingar myndu án efa leyfa þeim að auka varnarmátt sitt á eyjunni stóru meira og minna eins og þeim sýnist,“ segir hann.
Illugi telur að raunverulegar ástæður áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi séu aðrar og alvarlegri. Hann segir málið snúast annars vegar um auðlindir og hins vegar um valdastöðu gagnvart Evrópu.
„Belgingur Bandaríkjamanna í garð Grænlands og Grænlendinga snýst því augljóslega ekki um öryggishagsmuni, heldur annars vegar um að stjórnin í Mar-a-Lago ætlar að kasta eign sinn á auðlindir Grænlendinga og hins vegar er verið að sýna Dönum og Evrópumönnum hver ræður,“ skrifar Illugi.
Að lokum varar hann við því að Ísland gæti orðið næsta skref í þessari þróun.
„Næst kemur svo röðin að Íslandi. Höfum það á hreinu.“
Færslan hefur vakið athygli en þegar þessi orð eru rituð hafa 244 líkað við færsluna og hefur henni verið deilt 33 sinnum. Langflestir þeirra sem skrifa athugasemd við færsluna eru sammála Illuga en einn þeirra er afar ósammála en það er Kristbjörn Helgi Björnsson, sagnfræðingur og framhaldsskólakennari. Hann skrifar: „Hvaða bull er þetta? Næst kemur röðin að Ísland?? Nei!“


Komment