Nanna Rögnvaldardóttir, rithöfundur og þýðandi, hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í dag. Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, afhenti henni verðlaunin við hátíðlega athöfn í Höfða.
Alls bárust 71 handrit undir dulnefni í ár, og bar handrit Nönnu sigur úr býtum en það nefnist „Flóttinn á norðurhjarann“.
„Þessi viðurkenning er mér mjög dýrmæt, ekki aðeins vegna þess að ég þekkti Guðrúnu, kom að sumum bóka hennar á vinnslustigi og mat hana ætíð mikils, heldur einnig vegna þess að sagan gaf mér tækifæri til að fjalla um tímabil sem er mér afar hugleikið frá nýju sjónarhorni – séð með augum barns sem þarf að takast á við ótrúlega erfiðar aðstæður en upplifir líka gleði, spennu og ást. Aðalpersónan, Solla, var formóðir mín og það gerði söguna enn mikilvægari fyrir mér,“ sagði Nanna við tilefnið.









Komment