
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur í meira en 30 ár varað við alvarlegri ógn sem hann segir stafa af Íran, bæði gagnvart Ísrael og umheiminum.
Í júní tók Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, undir þær viðvaranir og lét sprengja kjarnorkumannvirki í Teheran. En þrátt fyrir það virðist Netanyahu ekki sáttur og mun beita sér fyrir frekari hernaðaraðgerðum gegn Íran þegar hann snýr aftur til Bandaríkjanna á sunnudag til að hitta Trump á Mar-a-Lago-setrinu í Flórída, að því er fram kemur í frétt Al Jazeera.
Að þessu sinni beinist athyglin að eldflaugakerfi Írans.
Ísraelskir ráðamenn og bandamenn þeirra í Bandaríkjunum hvetja aftur til harðra aðgerða og segja að bregðast verði við eldflaugum Írans án tafar.
Sérfræðingar segja þó að frekari átök við Íran fari beint gegn yfirlýstum áherslum Trump í utanríkismálum.
Sina Toossi, sérfræðingur hjá Center for International Policy, segir að á meðan Trump vilji efla efnahags- og stjórnmálasamstarf Ísraels og arabaríkja, sé Netanyahu einungis að stefna að hernaðarlegum yfirráðum í Miðausturlöndum.
„Þessi þörf fyrir stöðuga aðkomu Bandaríkjanna og stöðug stríð gegn Íran til að brjóta niður íranska ríkið endurspeglar markmið Ísraels um óumdeilda yfirburði og útþenslu,” segir Toossi.
„Ég held að þetta liggi að rótum markmiða Netanyahus og þeirrar stefnu sem hann vill þrýsta á að Bandaríkin styðji. En þar mun koma að árekstri við hagsmuni Bandaríkjanna, sem vilja stöðugleika á svæðinu án beinnar hernaðarþátttöku.”
Trump segist hafa skapað frið – þrátt fyrir brot Ísraels á vopnahléi
Frá því að Trump miðlaði vopnahléi á Gaza, sem Ísrael hefur brotið nær daglega, hefur hann lýst sér sem friðarsinna og haldið því fram að hann hafi komið á friði í Miðausturlöndum í fyrsta skipti í 3.000 ár.
Í nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna segir að Miðausturlönd séu „að verða svæði samstarfs, vináttu og fjárfestinga” og að svæðið sé ekki lengur forgangsmál fyrir Bandaríkin.
Frá kjarnorku til eldflauga
Á sama tíma og Bandaríkin boða minni viðveru í Miðausturlöndum virðist Ísrael reyna að koma af stað átökum sem gætu dregið Bandaríkin inn í nýtt stríð.
Í áratugi hefur Ísrael fullyrt að kjarnorkuáætlun Írans sé helsta ógnin. En Trump heldur því fram að loftárásir bandaríska hersins í júní hafi „þurrkað út” þá áætlun. Þrátt fyrir að sú fullyrðing sé umdeild hafa yfirlýsingar Trump knúið Ísrael til að finna nýja ógn til að varpa fram, samkvæmt sérfræðingum.
Trita Parsi, aðstoðarforstjóri Quincy Institute, segir að vegna þess að Trump haldi því fram að kjarnorkumálin séu leyst, snúi Ísrael nú athyglinni að eldflaugum.
„Netanyahu er að ýta Bandaríkjunum út í annað stríð við Íran, nú með áherslu á eldflaugarnar, meðal annars vegna þess að Trump vill ekki ræða kjarnorkumálin, hann heldur því fram að hann hafi lagað þau, að hann hafi „gjöreytt” áætluninni,” segir Parsi.
„Ísraelar munu sífellt færa markmiðin til að tryggja að átökin við Íran verði endalaust stríð.”
Íran hefur ávallt haldið fram að kjarnorkuáætlun sína sé friðsamleg, ólíkt Ísrael, sem talið er að hafi ótilkynnt kjarnorkuvopn. Þá hefur Íran aldrei ráðist á Ísrael með eldflaugum nema eftir árásir eða hernaðarathafnir Ísraels.
Þrátt fyrir það hafa Ísrael og bandamenn þeirra varað við því að eldflaugaframleiðsla Írans sé að taka við sér.
AIPAC sagði í tölvupósti til stuðningsmanna að Ísrael telji Íran enn hafa 1.500 eldflaugar af um 3.000 sem landið hafði áður.
Öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham, einn helsti gagnrýnandi Írans í Repúblikanaflokknum og náinn bandamaður Trump, hélt því fram í Ísrael að Íran væri að framleiða eldflaugar „í mjög miklum mæli“.
Gagnrýnendur segja að Ísrael sé ekki einungis að reyna að verjast ógn heldur vilji tryggja yfirráð í héraðinu. Að lokum sé markmiðið annaðhvort að koma íranskri stjórn frá eða halda landinu veiku með reglubundnum árásum.
„Ísrael mun koma á sex mánaða fresti með nýja áætlun um að sprengja Íran,” segir Parsi. „Og það mun ekki enda fyrr en Trump stoppar það.”
Bandaríska hægrið klofið – grasrótin vill ekki stríð
Haukarnir í utanríkismálum sem vilja valdaskipti í Íran hafa lengi verið ráðandi í Repúblikanaflokknum, en nú er stór hluti grasrótarinnar andsnúinn hernaðaríhlutun.
Tucker Carlson, Steve Bannon og aðrir áhrifamiklir hægrisinnaðir fjölmiðlamenn hvöttu Trump eindregið til að ráðast ekki á Íran síðastliðið sumar.
Carlson hefur nú gagnrýnt Netanyahu harðlega:
„Það eru ekki liðnir sex mánuð síðan Trump tók áhættu og setti Bandaríkin í stríð við Íran fyrir Netanyahu, en samt krefst forsætisráðherrann meira,“ skrifaði hann. „Þetta er skilgreiningin á sníkjusambandi.“
Þrátt fyrir það er meirihluti repúblikana á þingi hlynntur Ísrael og Marco Rubio, utanríkisráðherra Trump, er þekktur gagnrýnandi Írans. Þá hafa stórir styrktaraðilar Trumps, þar á meðal Miriam Adelson, þrýst á um harða afstöðu.
Hætta á stórum átökum ef farið verður í aðra árás
Trump gat lýst yfir „sigri“ eftir loftárásirnar í júní, án þess að Bandaríkin dragist inn í langt stríð en sérfræðingar vara við að Íran muni ekki sýna sama sjálfsstjórn í annað sinn.
„Viðbrögð Írans yrðu mun harðari og skjótari,“ segir Parsi. „Ef þeir bregðast ekki harkalega við, þá verður Íran land sem Ísrael bombar á sex mánaða fresti.”
Hann segir einnig að Ísrael gæti ráðist einhliða á Íran og treyst á bandarísk loftvarnarkerfi á svæðinu til að draga Bandaríkin óbeint inn í stríð.

Komment