
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið með víðtækt umferðareftirlit í desember og stöðvað þúsundir ökumanna síðustu tvær helgar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ástand tæplega þriggja þúsund ökumanna kannað í sérstöku eftirliti sem beint var að ölvunar-, fíkniefna- og lyfjaakstri.
Níu ökumenn reyndust ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna og voru þeir handteknir og fluttir á lögreglustöð. Þá var átta öðrum gert að stöðva akstur þar sem þeir höfðu neytt áfengis, þó undir refsimörkum.
Lögregla segir að langflestir ökumenn hafi tekið afskiptunum vel og að eftirlitið sé unnið í þágu almennings til að tryggja öryggi allra í umferðinni. Eftirlitinu verður framhaldið um helgina og hvetur lögregla ökumenn til að vera undir það búnir að verða stöðvaðir hvar og hvenær sem er.

Komment