
Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar nú tilvik þar sem fólk dvelur ólöglega í húsum í gömlu byggðinni í Súðavík, þar sem dvöl er bönnuð frá 1. nóvember til 30. apríl ár hvert. Við eftirlit í gærkvöldi kom í ljós að fólk var í nokkrum húsanna, sumt með vitneskju um bannið.
Lögreglan lýsir þessu sem alvarlegu öryggismáli þar sem veðurfar getur verið varasamt á svæðinu. Slíkar takmarkanir eru settar til að tryggja öryggi og auðvelda viðbrögð ef neyðarástand skapast.
Þrátt fyrir brot á kvöðunum getur lögreglan ekki rýmt húsin með valdi nema almannavarnastig hafi verið virkjað. „Við höfum reynt að ræða við þá sem þarna virðast dvelja, en sumir þeirra hafa áttað sig á stöðunni og vilja ekkert við okkur tala,“ segir Helgi Jensson lögreglustjóri meðal annars í samtali við Bæjarins bestu.
Hann segir það bæði siðferðilega rangt og erfitt fyrir lögregluna að verja tíma sínum í þetta, sérstaklega í ljósi sögunnar og að húsin hafi verið keypt og bætt.
„Það er mjög bagalegt fyrir lögregluna að þurfa að eyða tíma sínum á hættutímum í að hafa áhyggjur af þessu svæði, þegar nóg annað er að gera. Siðferðislega, m.t.t. þess sem þarna gerðist og vegna þess að húsin hafa verið bætt, finnst mér þetta líka algerlega óforsvaranlegt,“ segir Helgi í samtali við Bæjarins bestu.
Lögreglan hefur þrýst á stjórnvöld um lagabreytingar svo hægt verði að framfylgja reglunum betur, en það gengur hægt að sögn Helga.
Komment