
Evrópsk ríki munu senda átta slökkviflugvélar til Ísraels í dag til að styðja við neyðaraðgerðir þar í landi, að því er kemur fram í frétt The Times of Israel.
Stuðningurinn kemur á meðan eldar loga enn í ellefu brennipunktum nærri Jerúsalem og íbúar sjö bæja hafa verið fluttir á brott, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Ísraels.
Skógareldarnir, sem hafa staðið yfir í viku, geisa víða um Ísrael og meðal annars í nágrenni Jerúsalem. Alls vinna 155 slökkviteymi að því að ná stjórn á eldinum.
Aðgerðirnar fara fram í kjölfar viðvörunar forsætisráðherrans Benjamíns Netanjahú, sem lýsti yfir „þjóðarneyðarástandi“ í gær vegna hættunnar sem eldar stefna Jerúsalem í.
Eyal Caspi, yfirmaður slökkviliðs Ísraels, sagði eldana þá mestu sem landið hefur glímt við í áratug.
Í morgun sagði Slökkvilið Ísraels að það hefði enn „ekki náð stjórn“ á eldunum, samkvæmt The Times of Israel.
Athygli vekur að stjórnvöld í Palestínu hafa boðið fram aðstoð sína en í gegnum tíðina hafa palestínskir slökkviliðsmenn aðstoðað Ísraela þegar eldar hafa geisað. Stjórnvöld í Ísrael hafa ekki enn svarað Palestínuyfirvöldum.
Komment