
Rússneskur dómstóll hefur lýst pönk- og aktívistahópnum Pussy Riot sem öfgasamtökum. Hópurinn greinir sjálfur frá ákvörðuninni í yfirlýsingu á Facebook og segir hana tilraun stjórnvalda til að þurrka út tilvist þeirra úr vitund almennings í Rússlandi.
„Í dag stimplaði rússneskur dómstóll Pussy Riot sem öfgasamtök,“ segir í upphafi yfirlýsingarinnar. Þrátt fyrir dóminn segjast meðlimir hópsins ekki ætla að láta þagga niður í sér. „Og samt erum við frjálsari en þeir sem reyna að þagga niður í okkur.“
Í yfirlýsingunni ráðast þær harðlega að Vladimír Pútín Rússlandsforseta og segja: Við getum sagt hvað okkur finnst um Pútín, að hann sé aldraður sósíópati sem dreifir eitri sínu um heiminn eins og krabbamein. Þá bæta þær við: „Í Rússlandi í dag er það að segja sannleikann skilgreint sem öfgahyggja. Gott og vel, þá erum við stolt öfgasamtök.“
Pussy Riot segir dómsúrskurðinn hafa alvarlegar afleiðingar fyrir almenna borgara í Rússlandi. „Þessi dómsúrskurður er hannaður til að þurrka út sjálfa tilvist Pussy Riot úr huga Rússa. Það að eiga grímu, hafa lag með okkur á tölvunni sinni eða líka við eina af færslunum okkar gæti leitt til fangelsisvistar,“ segir í yfirlýsingunni.
Hópurinn segir að með dóminum hafi Pussy Riot í raun orðið „það sem má ekki nefna“ í Rússlandi og fleiri ríkjum. „Pussy Riot hefur í raun orðið að „þeim sem ekki má nefna“ í Rússlandi, og í löndum sem vinna með Rússlandi að framsali fólks: Hvíta-Rússlandi, Georgíu, Armeníu, Íran, Kína, Indlandi, Taílandi, Indónesíu og mörgum öðrum,“ segir í færslunni.
Þrátt fyrir þetta segjast þær halda áfram baráttu sinni. „Við berum grímur því ekki er hægt að stappa niður hugmynd,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni. Þá er aftur vikið að Rússlandsforseta: „Pútín kann að drepa andstæðinga sína, en heimurinn styður enn sannleikann, framfarir og réttlæti frekar en ranghugmyndir gamalla, hrörnaðra karla.“
Yfirlýsingunni lýkur á skýrum pólitískum stuðningi við Úkraínu og lýðræðisleg gildi
„Réttlátir einstaklingar þessa heims standa með lýðræði, með fullveldi Úkraínu, með tjáningarfrelsi og með pönkandanum, sem felst í því að standa upp gegn vonda kallinum, jafnvel þegar hann er sá sem hefur fleiri sprengjur.“

Komment