
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur skipað Ragnhildi Guðmundsdóttur í embætti forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands frá og með 1. febrúar næstkomandi. Forstöðumaður NMSÍ er skipaður til fimm ára en greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Þriggja manna ráðningarnefnd var skipuð innan ráðuneytisins sem tók viðtöl við þrjá umsækjendur að afloknu frummati á umsóknargögnum. Eftir að hafa kynnt sér niðurstöður nefndarinnar ákvað ráðherra að taka viðtöl við tvo umsækjendur sem þóttu fullnægja best hæfnisskilyrðum um embættið.
Ragnhildur er með B.S.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands sem hún lauk árið 2005. Hún er með meistaragráðu í líffræði frá Háskólanum í Tromsö og lauk námi til kennsluréttinda við Háskóla Íslands. Árið 2020 hlaut Ragnhildur doktorsgráðu í líffræði frá Háskóla Íslands. Ragnhildur starfaði við rannsóknir hjá Hafrannsóknarstofnun Íslands og sinnti kennslu við Verzlunarskóla Íslands. Ragnhildur hóf störf hjá Náttúruminjasafninu árið 2021 og hefur frá því í maí 2025 verið settur forstöðumaður safnsins.

Komment