
Hinn goðsagnakenndi reggísöngvari Jimmy Cliff er látinn, að því er eiginkona hans, Latifa Chambers, tilkynnti í dag.
Latifa skrifaði:
„Það er með mikilli sorg sem ég tilkynni að eiginmaður minn, Jimmy Cliff, er farinn yfir móðuna miklu eftir að hafa fengið flogakast og síðan lungnabólgu. Ég er þakklát fjölskyldu hans, vinum, listamönnum og samstarfsfólki sem hafa fylgt honum í þessari lífsreisu.“
Hún bætti við:
„Til allra aðdáenda hans um allan heim vil ég segja að stuðningur ykkar var styrkur hans í gegnum alla hans starfsævi. Hann kunni virkilega að meta hvern og einn fyrir ást þeirra og stuðning. Ég vil einnig þakka Dr. Couceyro og öllu heilbrigðisstarfsfólkinu fyrir einstakan stuðning og hjálp á þessum erfiðu tímum.“
Jimmy Cliff var þekktur fyrir lög eins og You Can Get It If You Really Want, The Harder They Come og Many Rivers to Cross, lög úr samnefndri kvikmynd frá 1972, þar sem hann fór einnig með aðalhlutverk.
Kvikmyndin var tímamótaverk á ferli hans. Cliff, sem var fæddur í Saint James á Jamaíka, gaf út sinn fyrsta slagara, Hurricane Hattie, aðeins 14 ára gamall.
Á þrítugsaldri náði hann alþjóðlegri frægð með lögum eins og Wonderful World, Beautiful People og Vietnam. Stærsti smellur hans á Billboard var árið 1993, þegar hann tók I Can See Clearly Now fyrir kvikmyndina Cool Runnings, sem náði inn á topp 20 listann.
Samkvæmt heimasíðu Grammy-verðlaunahafans var lagið Vietnam lýst af Bob Dylan sem „besta mótmælalag sem nokkru sinni hefur verið samið.“

Komment