Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt nýja stefnu um fjölmenningarborgina Reykjavík fyrir árin 2026–2030. Um er að ræða fyrstu stefnumótun sinnar tegundar þar sem Reykjavík er skilgreind með skýrum hætti sem fjölmenningarborg.
Stefnan var samþykkt á fundi borgarstjórnar í vikunni, að loknu samráðsferli sem fór fram í samráðsgátt Reykjavíkurborgar. Drög að stefnunni voru sett í samráð 21. nóvember og samráðsferlinu lauk 9. desember. Alls bárust sjö umsagnir sem tekið var tillit til áður en endanleg útgáfa stefnunnar var lögð fyrir borgarstjórn og samþykkt á þriðjudag.
Stýrihópur um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík var skipaður í febrúar á síðasta ári og hafði það hlutverk að móta heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Áhersla var lögð á inngildingu, jafnrétti og virka þátttöku allra í borgarsamfélaginu.
Markmið stýrihópsins var að tryggja að fjölmenningarleg gildi endurspegluðust í allri stefnumótun og þjónustu borgarinnar og að framlag innflytjenda nyti aukinnar viðurkenningar. Jafnframt var leitast við að endurskoða heildarnálgun borgarinnar á málaflokkinn og móta skýra framtíðarsýn fyrir Reykjavík sem fjölmenningarborg.
Stefnan er hugsuð sem leiðarljós fyrir alla starfsemi Reykjavíkurborgar og verða áherslur hennar ofnar inn í starfsemi og stefnumörkun borgarinnar á öllum sviðum. Í aðgerðaráætlun stefnunnar er kveðið á um að öll svið borgarinnar endurskoði hvernig starfsemi þeirra, bæði sem atvinnurekandi, þjónustuveitandi og samstarfsaðili, snertir íbúa með fjölbreyttan menningar- og upprunabakgrunn.
Stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík gildir fyrir tímabilið 2026–2030 og byggir á bestu þekkingu og reynslu hverju sinni, samkvæmt samþykkt borgaryfirvalda.


Komment