
Karlmaður sem grunaður er um ítrekað heimilisofbeldi gagnvart sambýliskonu sinni hefur verið vísað af heimili þeirra og sætt nálgunarbanni í kjölfar alvarlegra ásakana og myndefnis sem sýnir ofbeldið. Vísir sagði frá málinu.
Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Vesturlands, sem Landsréttur hefur staðfest, að þau hafi kynnst í apríl 2025 og flutt fljótlega inn saman. Konan segir að ofbeldi og hótanir mannsins hafi hafist skömmu síðar.
Hún tilkynnti málið til lögreglu um miðjan nóvember og lýsti m.a. árás í júlí eða ágúst þar sem hún varð fyrir endurteknum hnefahöggum og fékk glóðurauga og aðra áverka. Í kjölfarið flutti hún tímabundið til fyrrverandi kærasta.
Kvöldið sem hún fór til lögreglu hafði maðurinn, að hennar sögn, meðal annars kastað hlutum, hótað henni, gripið hana og meinað henni að kalla á aðstoð. Hann á einnig að hafa reynt að kveikja í klósettpappír og hótað að brenna íbúðina, auk þess sem hann tók upp hníf og beindi honum að henni. Hún flúði í kjölfarið af heimilinu. Nágranni staðfesti að hann hefði heyrt læti og að hann kallaði hana „tussu“ en varð ekki vitni að ofbeldi.
Síðar í nóvember kallaði konan aftur á aðstoð lögreglu eftir að maðurinn á að hafa reynt að kæfa hana með dýnum, lagt hönd yfir munn hennar, barið hana og hótað að drepa hana. Þá fundu lögreglumenn upptökur úr öryggismyndavél við heimili hennar. Á þeim sést maðurinn koma að konunni, hrinda henni harkalega í gólfið, halda fyrir andlit hennar og draga hana eftir gangstéttinni. Einnig sést hann lyfta henni upp með báðum höndum um hálsinn áður en hann ýtir henni inn í íbúðina.
Maðurinn hefur neitað sök í skýrslutökum.
Lögreglustjórinn á Vesturlandi úrskurðaði hann í brottvísun af heimilinu í allt að fjórar vikur og lagði á nálgunarbann sem bannar honum að nálgast eða hafa samband við konuna. Héraðsdómur og síðar Landsréttur staðfestu ákvörðunina.

Komment