
Mikið hefur verið rætt og skrifað um bækur Halldórs Laxness síðan greint var frá því að aðeins þriðjungur framhaldsskóla landsins kenni bók eftir hann í skylduáfanga í íslensku. Hafa sumir sagt þetta vera merki um hnignun íslenska skólakerfisins.
Rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen segir hins vegar að hann hafi fengið of mikla Laxness kennslu þegar hann var nemandi í Menntaskólanum í Kópavogi. „Þegar ég var í MK lásum við Sölku Völku, alla Íslandsklukkuna, Sjálfstætt fólk og ýmsar smásögur eftir Laxness. Það var allt of mikið,“ skrifar Emil á samfélagsmiðla en hann hefur sjálfur skrifað bækur á borð við Skuld, Sólhvörf og Hælið
„Í minningunni var íslenskukennslan fjögur ár af Laxness. Ég þróaði með mér óþol. Hætti að kunna að meta bækurnar. Las ekki Laxness aftur fyrr en síðastliðið vor: Kristnihald undir Jökli. Ég fórnaði þá stundum höndum yfir hversu frábær höfundur hann var. Leikur sér með stíla, snýr upp á sjónarhorn og segir söguna á einstakan hátt. Eins og að drekka vatn.“
Hann segir að hann kunni loksins að meta nóbelsskáldið og vilji endurlesa bækurnar sem hann las í framhaldsskóla.
„Ég tel mikilvægt að lesa Laxness í framhaldsskólum en ekki í því magni sem ég (og kannski mín kynslóð?) þurfti að gera. Það var eins og annar íslenskur höfundur væri ekki til,“ skrifar rithöfundurinn að lokum.

Komment