
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, segir að nýleg framkoma og yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda í garð Grænlands sýni glöggt að NATO sé í raun ekki lengur starfhæft bandalag jafnrétthárra vinaþjóða.
Í Facebook-færslu sinni veltir Kristinn fyrir sér hvort enn sé einhver vafi um stöðu bandalagsins.
„Hafi einhver efast um að NATO sé í raun dautt og mun ekki lifa áfram nema í besta falli sem skuggi glansmyndar um jafngildar vinaþjóðir, ætti sá efi að vera horfinn. Eða ætla menn að bíða með að gefa út dánarvottorðið þar til bandaríski landsstjórinn sest við völd í Nuuk?“
Hann vísar þar til fundar danska utanríkisráðherrans Lars Løkke Rasmussen og grænlenska utanríkisráðherrans Vivian Motzfeldt með bandarísku stjórnmálamönnunum Marco Rubio og JD Vance. Kristinn lýsir atvikum eftir fundinn á kaldhæðinn hátt:
„Eftir fund með Marco Rubio og DJ Vance núna áðan fengu þau Lars Lökke Rasmussen og Vivian Motzfeldt sér smók fyrir utan fundarstað og töldu sumir þetta gott merki en aðrir gætu nú ályktað að það væri merki um nauðsyn þess að róa taugarnar eftir fund með þessum náungum.“
Í færslunni gagnrýnir Kristinn einnig harðlega yfirlýsingar Donald Trump, sem ítrekaði á samfélagsmiðlum að Bandaríkin „þyrftu“ Grænland.
„Donald Trump ítrekaði afstöðu sína á samfélagsmiðlum í dag og sagði að Bandaríkin þyrftu Grænland. Allt annað væri óásættanlegt. Þvaðraði hann svo um hættuna af því að annars myndu Rússar og/eða Kínverjar taka landið.“
Kristinn segir þessi rök hvorki sannfærandi né nýstárleg og líkir þeim við fyrri réttlætingar Bandaríkjanna fyrir afskiptum annars staðar í heiminum.
„Þetta er álíka innihaldsrýr og ósannfærandi rök og þau sem voru lögð fram til að rökstyðja árásina á Venesúela og ránið á Madúró forseta. Alltaf snýst þetta um auðlindir.“
Hann gagnrýnir jafnframt áróðursmynd sem Hvíta húsið birti á samfélagsmiðlum, þar sem grænlenskir hundasleðar eru sýndir á krossgötum milli Bandaríkjanna annars vegar og Rússlands og Kína hins vegar.
„Þetta er hundasleðaflaut á barnaskólastigi.“
Í lok færslunnar víkur Kristinn að fréttum af nýskipuðum sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Billy Long, sem hafi gert grín að því að Ísland yrði næsta fylki Bandaríkjanna.
„Á sama tíma berast tíðindi af því að Billy Long, skipaður næsti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hafi gantast með það að Ísland yrði 52. ríki Bandaríkjanna.“
Kristinn lýkur færslu sinni á háðslegum nótum og beinir orðum sínum að íslenskum stjórnvöldum:
„Ég bíð eftir viðbrögðum frá Valkyrjunum en býst heldur við að þau verði í ætt við spurninguna ‚Já en hvernig var leikritið frú Lincoln?‘“

Komment