
Sex manns, þar á meðal tvö börn, hafa látist eftir að ferðamanna-kafbátur með tugi farþega um borð sökk við strendur Egyptalands.
Egypsk yfirvöld hafa sent fjölda sjúkrabíla að ströndinni nálægt vinsælu ferðamannasvæði í Hurghada eftir að neyðarkall barst vegna kafbátsins „Sindbad“. Kafbáturinn, sem var með um 44 farþega af mismunandi þjóðernum um borð, sökk eftir að hafa klesst á bryggju.
Umræddur „hálf-kafbátur“ hefur í mörg ár verið notaður í ferðamannaferðir og var hannaður til að veita gestum útsýni undir yfirborði sjávar. Ólíkt hefðbundnum kafbátum, fer hann ekki algjörlega undir yfirborðið heldur býður farþegum upp á að horfa út í hafið í gegnum neðra þilfarið.
Samkvæmt Baza Telegram-rásinni voru börn á meðal hinna látnu. Þar var einnig greint frá því að 45 rússneskir ferðamenn hafi verið um borð í kafbátnum. Enn er leitað að tveimur manneskjum, og 13 hafa verið fluttir á sjúkrahús.
Ferðamennirnir höfðu greitt fyrir ferð til að skoða hin frægu kóralrif Rauðahafsins, en báturinn valt á hliðina og sökk eftir að hafa klesst á bryggju. Björgunaraðgerðir eru nú í fullum gangi, þar sem neyðaraðilar vinna að því að bjarga fólki úr hafdýpinu.
Fyrstu fregnir af atvikinu bárust frá Öryggissveitum Rauðahafsins, sem sögðu kafbátinn hafa sokkið í smábátahöfn tengdri „frægu hóteli“, sem hefur enn ekki verið nafngreint í egypskum fjölmiðlum. Heimildir segja að öryggisyfirvöld og egypska sjúkraflutningastofnunin séu í hæsta viðbúnaðarstigi vegna atviksins.
Mirror segir frá málinu.
Komment