
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, furðaði sig á því í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í dag að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefði ekki hringt í Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Sigmundur vill að Trump verði boðið í opinbera heimsókn og honum veitt verðlaun. „Verður forseta Bandaríkjanna jafnvel boðið til Íslands? Hér á Íslandi eru margir áhugaverðir golfvellir. Á sumrin er hægt að spila miðnæturgolf. Og ég held það færi vel á því að bjóða Bandaríkjaforseta til Íslands. Veita honum kannski einhver verðlaun og efla og styrkja samstarf þessara ríkja, ekki veitir af að hafa öfluga bandamenn þegar við horfum upp á vandræðagang vina okkar í Evrópu,“ spurði hann.
Sigmundur telur að Trump hafi stimplað sig rækilega inn á alþjóðavettvangi með samningum um vopnahlé í Palestínu.
„Er ekki orðið tímabært að ná raunveruleikatengingu hjá þessari ríkisstjórn? Gera sér grein fyrir því að Bandaríkin hafa jú aftur fest sig í sessi með fyrri hætti sem leiðandi afl á alþjóðavísu. Voru kannski dalandi sem slíkt um tíma, en hafa rækilega stimplað sig inn aftur. Og þá dugar ekki að spjalla við menn sem menn hitta á göngunum á alþjóðafundum eða halda lyftufund og segja að Ísland vilji gjarnan vilja vinna vel með Bandaríkjunum.“
Kristrún sagðist tvisvar hafa hitt Trump og rætt óformlega við hann. Hún hefði líka sent beiðni um samtal við forsetann, sem ekki hefur orðið við.
Komment