
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur orðið við beiðni Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra um að láta af embætti en greint er frá þessu í tilkynningu frá yfirvöldum.
Þetta var niðurstaða fundar þeirra beggja í gær.
„Þetta er farsæl niðurstaða og rétt ákvörðun af hálfu Sigríðar Bjarkar. Það er mikilvægt að um lögregluna ríki friður og traust. Nú stöndum við frammi fyrir því verkefni að koma rekstri embættis ríkislögreglustjóra á réttan kjöl og halda áfram að efla lögregluna í landinu. Ég þakka Sigríði Björk fyrir störf sín innan lögreglunnar undanfarna áratugi,“ segir ráðherra.
Í kjölfarið mun ráðherra flytja Sigríði Björk í stöðu sérfræðings í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi í dómsmálaráðuneytinu.
„Ég hef lagt mikla áherslu á baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og þessi málaflokkur er forgangsmál hjá mér og ríkisstjórninni. Sigríður Björk hefur áratuga reynslu og þekkingu á þessu sviði sem mun því nýtast áfram.“
Grímur Hergeirsson settur ríkislögreglustjóri
Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að setja Grím Hergeirsson tímabundið í embætti ríkislögreglustjóra frá 14. nóvember nk. Grímur á 30 ára feril að baki og hóf störf hjá lögreglunni 1996. Hann hefur verið lögreglustjóri á Suðurlandi síðan árið 2022. Embætti ríkislögreglustjóra verður auglýst á næstunni.

Komment