
Knattspyrnuþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson var fyrr á árinu ráðinn sem landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu karla og mun liðið síðar í dag spila sinn fyrsta leik undir stjórn hans. Leikurinn sem er á móti Kósovó er hluti af Þjóðardeild UEFA og mun Ísland leika tvo leiki við Kósovó til að skera úr um hvort landið muna leika í B-deild Þjóðardeildinnar.
En hvernig komst Arnar á þann stað að verða ráðinn landsliðsþjálfari Íslands?
Ungur markakóngur
Arnar lék fyrstu leiki sína með ÍA á Akranesi og hann var nýbúinn með grunnskóla þegar hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild á Íslandi árið 1989. Næstu árin hélt Arnar áfram að sanna sig með Skagamönnum þar til hann blómstraði árið 1992, tæplega tvítugur að aldri. Þá skoraði hann 15 mörk í 18 leikjum í efstu deild með ÍA sem varð Íslandsmeistari og var Arnar markhæsti leikmaður mótsins.
Hann var í kjölfarið keyptur, ásamt Bjarka tvíburabróður sínum, til hollenska stórliðsins Feyenoord. Léku þeir bræður þar í eitt og hálft ár en fengu fá tækifæri.
„Við viljum báðir fara frá Feyenoord og viljum hypja okkur héðan sem fyrst svo við náum að æfa undirbúningstímann með Nürnberg. Við þurfum á breytingu að halda enda er kominn einhver deyfð í þetta hjá Feyenoord.“
Þeir færðu sig saman yfir til Þýskalands þar sem þeir spiluðu með FC Nürnberg í næstu efstu deildinni og spilaði Arnar 28 leiki og skoraði átta mörk. Þrátt fyrir þennan ágætis árangur leituðu hugar þeirra heim og léku þeir hálft tímabil með ÍA. Þar fór Arnar algjörlega á kostum og skoraði 15 mörk í aðeins sjö leikjum.
Öllum var ljóst að Arnar myndi fara aftur út í atvinnumennsku en markahrókurinn gekk til liðs við Bolton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni árið 1997 þar sem hann fékk tækifæri til að spila á móti mörgum af bestu knattspyrnumönnum sögunnar. Því miður fyrir Bolton féll liðið niður um deild en það þýddi hins vegar fyrir Arnar aukinn tækifæri á vellinum og náði hann þeim glæsilega árangri að skora 13 mörk í 27 leikjum og var í kjölfarið seldur til Leicester City.
Félagskiptin gengu þá ekki vel fyrir sig en Arnar fór fram á að vera settur á sölulista eða fá mun betri samning hjá Bolton.
„Það eru mikil vonbrigði þegar leikmenn láta stjórnast af græðgi.“
Arnar hafnaði þeim ásökunum.
Leicester City lék þá í ensku úrvalsdeildinni og spilaði hann alls 30 leiki í úrvalsdeildinni fyrir félagið á fjórum tímabilum. Á þeim tíma var Arnar einnig lánaður til Íslendingaliðsins Stoke City sem lék þá í þriðju efstu deild Englands.
Arnar upplifði þó sennilega eina stærstu stund ferilsins hjá Stoke þegar liðið vann Framrúðubikarinn svokallaða en hann var hluti af bikarkeppni neðri deildar liða. Þar spilaði hann fyrir fram 75 þúsund áhorfendur á hinum sögufræga Wembley leikvangi.
Frá Leicester City hélt Arnar svo til Dundee United árið 2002 þar sem hann lék aðeins sjö leiki á einu tímabili.
Eftir það hélt Arnar heim og lék með KR, ÍA, FH, Fram, Val og Haukum næsta áratuginn. Þar sýndi hann, þegar hann var ekki meiddur, að hann var ennþá einn af bestu framherjum sem Ísland hafði upp á bjóða þrátt …

Komment