
Rétt fyrir hádegi í dag, kl. 11:40, stendur stúdentahreyfingin Röskva fyrir opnu pallborði á Háskólatorgi þar sem fjallað verður um geðheilbrigði nemenda, aðgengi að úrræðum og stöðu málaflokksins í víðara samhengi. Pallborðið er haldið í samstarfi við Geðhjálp og Bergið Headspace.
Markmið pallborðsins er að kynna þau úrræði sem standa nemendum til boða, draga úr fordómum í kringum geðheilbrigðismál og hvetja stúdenta til að leita sér aðstoðar þegar þörf er á. Viðburðurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.
Pallborðsgestir eru Helga Sif, sérfræðingur í geðheilbrigðismálum hjá Heilbrigðisráðuneytið, Pétur Maack, formaður Sálfræðingafélag Íslands, Rut Sigurðardóttir, félagsráðgjafi og fjölskyldufræðingur hjá Berginu Headspace, og Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi oddviti Röskvu.
Stjórnandi pallborðsins er Malín Marta Eyfjörð Ægisdóttir, blaða- og fréttamennskunemi og blaðamaður hjá RÚV.
Pallborðið hefst á stuttri kynningu frá Nemendaþjónusta Háskóla Íslands, þar sem farið verður yfir þau úrræði sem nemendum standa til boða, meðal annars viðtöl hjá sálfræðingum, meistaranemum í klínískri sálfræði og nemendum í félagsráðgjöf. Í kjölfarið munu pallborðsgestir kynna sig og tengsl sín við málaflokkinn áður en umræður hefjast undir stjórn spyrils. Að lokum verður opnað fyrir spurningar úr sal.
Meðal umfjöllunarefna verða staða geðheilbrigðismála innan kerfisins, hvað megi bæta, hlutverk tæknilausna á borð við gervigreind í stuðningi við fólk og hvernig megi styrkja aðgengi nemenda að þjónustu.
Guðlaug Eva Albertsdóttir, oddviti Röskvu á Heilbrigðisvísindasviði og sálfræðinemi, segir að málefnið snerti stóran hóp:
„Slæm geðheilsa er ein stærsta áskorun háskólanema og ungs fólks almennt í íslensku samfélagi. Með pallborðinu viljum við opna fyrir aukna umræðu innan veggja háskólans og vekja athygli á þessu mikilvæga málefni í samfélaginu öllu.“
Að pallborðinu standa einnig boð til þingmanna, rektors, borgarfulltrúa og frambjóðenda í prófkjörum á höfuðborgarsvæðinu, og er gert ráð fyrir að nokkrir þeirra mæti, samkvæmt fréttatilkynningu um viðburðinn.

Komment