
Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og fyrrverandi Sósíalistaforingi, gagnrýnir í nýrri Facebook-færslu áhrif þeirra sem vilja „bjarga íslenskri menningu“ með því að flytja inn bandarískan „Trumpisma“ og anti-woke stefnur.
Í færslunni lýsir Gunnar Smári því sem hann telur vera rótgróinn ótta og hvíta yfirburðarhyggju sem liggi að baki slíkum stefnum:
„Hlægilegastir allra eru þeir sem ætla að bjarga íslenskri menningu með því að flytja inn frá Bandaríkjunum Trumpisma og anti-woke, sem byggir þar á rótgrónum ótta við svarta manninn og miklum áhrifum kirkjudeilda hvítrar yfirburðarhyggju.“
Hann segir að þessir aðilar skilji hvorki bandarískt né íslenskt samfélag og séu ólæsir á bæði það sem þeir vilja sækja til Bandaríkjanna og íslenskt samfélag. Gunnar Smári bendir á að þeir segist vilja vernda íslenska menningu gegn enskri fjöldaframleiddri iðnaðarmenningu, en í raun séu þeir hluti af þeirri sömu ógn:
„...vilja aðlaga íslenska menningu bandarískum gildum sem hafa soðið upp úr síðkapítalismanum.“
Hann fjallar einnig um þróun Bandaríkjanna samkvæmt sínum skilningi og segir að þar sé ríkisvaldinu beitt til að þröngva upp á samfélagið hugmyndum kristinnar þjóðernishyggju:
„Og eru nú að umbreyta Bandaríkjunum í fasisma, þar sem ríkisvaldinu er beitt til að þröngva upp á samfélagið heimsendahugmyndum kristinnar þjóðernishyggju byggðri á hvítri yfirburðarhyggju.“
Gunnar Smári dregur fram muninn á Íslandi og Bandaríkjunum og segir að hérlendis sé almennt friðsamt og gestrisið samfélag, án inngróins rasisma og mótmælendakristni:
„Við erum almennt friðsamt gestrisið fólk. Þar sem hér var ekki þrælahald á svörtum vilja íslenskir Trumpistar því byggja andmannúðarstefnu sína fyrst og fremst á kvennfyrirlitningu (sem enn eymir af á Íslandi) og andúð á menntafólki.“
Hann gagnrýnir einnig að stefna þessara einstaklinga sé að magna upp andúð gegn konum, innflytjendum og menntafólki sem leið til valda:
„Þeir telja leið sína til valda vera að magna upp andúð gegn konum, innflytjendum og menntafólki eins og óvild fólks gegn þessum hópum fólks geti orðið þeim viðlíka aflgjafi...“
Að lokum lýsir Gunnar Smári því að hann trúi ekki að Íslendingar taki upp haturssamfélag hvítra kristinna þjóðernissinna, jafnvel þótt þeir geti stundum verið „kjánalegir“ í hópum:
„Þótt Íslendingar geti verið kjánalegir þegar þeir koma saman í hóp þá eru þeir ekki svo vitlausir að leggja niður eigin menningu og samfélag til að taka upp haturssamfélag hvítra kristinna þjóðernissinna í Bandaríkjunum. Bara til að koma einhverjum stertimennum til valda.“

Komment