
Mánudaginn 15. september klukkan 16:30 flytur Grégory Cattaneo, franskur miðaldasagnfræðingur og rithöfundur, fyrirlestur í Borgarbókasafninu Spönginni um djöfulinn og hlutverk hans í evrópskri menningu á miðöldum.
Í erindinu verður fjallað um hvernig hugmyndir um djöfulinn og tengdar verur mótuðust á tímabilinu frá 5. til 15. aldar og hvaða áhrif þær höfðu á daglegt líf fólks. Grégory ræðir meðal annars djöfladýrkun, villutrú, blót, tákn, sögusagnir, þjóðtrú og viðbrögð kirkjunnar, auk þess sem hann skoðar hvernig djöfullinn birtist í miðaldalist, bæði í málverkum, höggmyndum og bókmenntum.
Grégory Cattaneo hefur doktorsgráðu í sögu og hefur síðustu ár kennt við Endurmenntun Háskóla Íslands þar sem hann miðlar rannsóknum sínum til breiðari hópa. Hann er búsettur á Íslandi og hefur lagt áherslu á að gera miðaldafræði aðgengilega fyrir almenning.
Fyrirlesturinn, sem ber heitið Stefnumót við djöfulinn, fer fram á íslensku og stendur frá kl. 16:30 til 17:30 og eru öll velkomin.
Komment