
Litlu mátti muna að illa færi í gærmorgun í Mosfellsbæ þegar ökumaður missti stjórn á bíl sínum eftir að hafa viljandi látið hann renna í hringtorgum í bænum.
Atvikið átti sér stað rétt fyrir klukkan sjö um morgun og náði leigubílstjórinn Björgvin Sævar Ármannsson upptöku af glæfraskapnum.
„Þetta var mjög furðulegt,“ sagði Björgvin við Mannlíf um þessa hegðun bílstjórans. „Þetta byrjaði á því að hann kemur aftan að mér í Hvalfjarðargöngunum, var alveg límdur aftan í bílinn hjá mér. Svo á Kjalarnesinu er hann frekar nálægt mér en ég gerði nú að gamni mínu, það var svo mikið vatn þarna, að keyra í hjólförin þannig að það rigndi vel yfir hann,“ sagði leigubílstjórinn.
„Svo tók hann fram úr mér þegar kemur tvöfalt, alveg á góðri siglingu, en svo var einhver hægfara fyrir framan hann þannig að ég náði honum aftur. Það er svo á hringtorgunum þar á eftir sem hann er að „slæda“ í gegnum hringtorgin. Var eitthvað að leika sér,“ en ökumaðurinn missti svo stjórn á bílnum og ók á móti umferð inn í hringtorgið. Björgvin segist ekki hafa verið í neinni hættu en þetta hefði geta endað mun verr ef hann hafði tekið eftir honum eða ef hann hefði verið á meiri ferð. Ökuníðingurinn var þó ekki hættur.
„Síðan tekur hann aftur fram úr mér stuttu seinna og þá sé ég að hann er í símanum, heldur á símanum með báðum höndum, og virðist vera stýra með hnénu.“
Samkvæmt upplýsingum Mannlífs er eigandi bílsins 19 ára gamall en ekki liggur fyrir hvort hann verið við stýrið þegar atvikið átti sér stað.
Komment