
Afstaða – réttindafélag og ÖBÍ réttindasamtök undirrituðu í dag samstarfssamning sem miðar að því að efla mannréttindi og bæta stöðu fatlaðra fanga á Íslandi. Samningurinn markar aukið og formfast samstarf félaganna á sviði réttindabaráttu, ráðgjafar og hagsmunagæslu.
Samninginn undirrituðu Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, og Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ. Með honum er stefnt að því að styrkja stöðu fatlaðra einstaklinga innan fangelsiskerfisins og auka vitund um réttindi þeirra, aðgengi að þjónustu og nauðsynlegar umbætur á aðstæðum.
Samstarfið felur meðal annars í sér sameiginlegt upplýsinga- og fræðslustarf, heimsóknir í fangelsi, ráðgjöf um aðgengismál og skipulagningu viðburða sem styðja við markmið samningsins. Þá er lögð áhersla á að sjónarmið fatlaðra fanga fái aukið vægi í stefnumótun og framkvæmd innan réttarkerfisins.
Samningurinn er til þriggja ára og gildir frá 1. janúar 2026 til 31. desember 2028. Hann verður endurskoðaður árlega með hliðsjón af reynslu, áherslum og árangri samstarfsins. Á samningstímanum mun ÖBÍ veita Afstöðu fjárhagslegan stuðning til að tryggja framkvæmd verkefna og faglega eftirfylgni.
Undirritun samningsins fór fram í Reykjavík fyrr í dag.

Komment