
Mörg hafa velt fyrir sér hvers vegna Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, virtist vilja fá knattspyrnumanninn og Sjálfstæðismanninn fyrrverandi, Pétur Marteinsson, í baráttu um oddvitasæti í flokknum.
Pétur þykir ekki síst frambærilegur í framkomu, þótt hann hafi byrjað framboðið á því að mismæla sig í fréttum RÚV og sagst vilja bjóða sig fram fyrir Sjálf ... Samfylkinguna. Reynsla hans af uppbyggingu í borginni gæti reynst styrkur, en eftir að ljóst varð að hann framseldi úthlutaða óbyggða lóð í Skerjafirðinum með 69 milljóna króna tekjum fyrir sjálfan sig, féll á ímyndina.
Tengsl Péturs við Kristrúnu hafa ekki verið kortlögð, þó svo að hún hafi átt samtal við hann um framboðið sem hún greindi frá í árslok.
Leiðir þeirra lágu hins vegar saman fyrir nokkrum árum með þeim hætti að Pétur fékk aðstoð Kviku banka við að fá lóðunum verðmætu í Skerjafirði úthlutað. Það gerðist með því að 12. október 2018 staðfesti Kvika gagnvart Reykjavíkurborg að bankinn væri „áhugasamur um að fjármagna framkvæmdina“, en 320 milljóna króna eiginfjárframlag vantaði upp á sem endurskoðendur KMPG sögðu að ekki væri sýnt fram á að viðskiptafélagarnir gætu lagt til.
Kristrún Frostadóttir var á þessum tíma aðalhagfræðingur Kviku, eftir að hafa verið ráðin í desember árið áður. Kristrún tæki ekki slíka ákvörðun sem aðalhagfræðingur, en hvort henni hafi borist til eyrna frá samstarfsfólki sínu frambærileiki Péturs er þó óvíst, en ljóst er að um mikla skuldbindingu bankans hefði verið að ræða.
Hitt er annað mál að skilja má aðkomu Kristrúnar að framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík þannig að hún vilji tryggja að Heiða Björg Hilmisdóttir, fengi örugglega samkeppni og helst frá hægri.
Komment