Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna fjögurra, Íslands, Noregs, Liechtenstein og Sviss, og Mercosur-ríkjanna, sem samanstanda af Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrugvæ, var undirritaður við hátíðlega athöfn í Ríó de Janeiro í gær.
„Þessi samningur hefur mikla þýðingu fyrir hagsmuni okkar en hann tryggir aðgang fyrir íslenskar afurðir inn á stærsta markaðssvæði Suður-Ameríku, sem telur yfir 270 milljónir íbúa,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og hún færir í tal að samningurinn „eflir tengsl okkar og hinna EFTA-ríkjanna við Mercosur-ríkin, stuðlar að fyrirsjáanlegum og reglubundnum alþjóðaviðskiptum og styður þar með við alþjóðaviðskiptakerfið sem er okkur svo mikilvægt.“
Það kemur fram í samningnum að tollar á allar helstu útflutningsafurðir Íslands, þar á meðal sjávarafurðir, falla niður, annað hvort í áföngum eða strax við gildistöku.
Þá er í samningnum einnig að finna ákvæði er lúta að vernd líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbærum landbúnaði og réttindum launafólks, auk sérstakra ákvæða gegn skógareyðingu.
Samningurinn verður næst lagður fyrir þjóðþing ríkjanna til fullgildingar og tekur gildi að því ferli loknu.
Það var Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands í fjarveru Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
Komment