
Ný skýrsla Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, sýnir að um 40% Eflingarfélaga búa við skort á efnislegum og félagslegum gæðum, sem þýðir að þau lifa við fátækt. Staða Eflingarfélaga er verulega verri en staða félagsfólks í öðrum aðildarfélögum ASÍ og BSRB, þar sem um 20% búa við sambærilegan skort.
Alls eiga 45% Eflingarfélaga erfitt með að ná endum saman, þar af eiga tæp 8% mjög erfitt með það. Til samanburðar eiga 28% félagsfólks annarra stéttarfélaga erfitt með að ná endum saman, þar af 3,5% mjög erfitt. Aðeins rúm 40% Eflingarfélaga telja sig geta mætt óvæntum 100 þúsund króna útgjöldum án þess að skulda sig, á meðan tæplega 64% annars launafólks telja sig geta það.
Fjölmargar mælingar á efnislegum skorti sýna að Eflingarfélögum gengur mun verr:
- 27% eiga ekki aðgang að bíl, borið saman við 7% annars launafólks.
- 24% hafa ekki efni á kjöti eða fisk annan hvern dag, borið saman við 12% annars launafólks.
- 25% geta ekki greitt alla reikninga á eindaga, borið saman við 8% annars launafólks.
- 52% geta ekki skipt út slitnum húsgögnum, borið saman við 30% annars launafólks.
- 36% hafa ekki efni á árlegu vikufríi að heiman, borið saman við 23% annars launafólks.
Einnig eru persónulegar þarfir og tómstundir fyrir áhrifum:
- 17% eiga ekki tvö pör af skóm, borið saman við 8% annars launafólks.
- 23% geta ekki skipt út slitnum fatnaði, borið saman við 9% annars launafólks.
- 53% hafa ekki efni á að sinna tómstundum eða áhugamáli, borið saman við 33% annars launafólks.
- 41% geta ekki varið smávegis pening í sjálfa sig vikulega, borið saman við 33% annars launafólks.
- 44% hafa ekki efni á að hitta vini eða fjölskyldu í mat eða drykk mánaðarlega, borið saman við 34% annars launafólks.
Í heildina má segja að yfir sjö þúsund Eflingarfélaga búi við verulegan skort. Samkvæmt skýrslunni telst fólk sem býr við skort í 7 eða fleiri af 13 mælikvörðum á efnisleg og félagsleg gæði vera í verulegum skorti.
- 20% Eflingarfélaga búa ekki við neinn skort, borið saman við 38% annars launafólks.
- 17% búa við almennan skort, borið saman við 11% annars launafólks.
- 22% búa við verulegan skort, borið saman við 10% annars launafólks.
Skýrslan sýnir að staða Eflingarfélaga í íslensku samfélagi er bæði alvarleg og verulega lakari en annars launafólks. Um 13.000 félagsmenn Eflingar eru fastir í fátæktargildru, þar af líða ríflega 7.000 verulegan skort, á meðan staða um það bil 5.000 annarra Eflingarfélaga er brothætt.
Komment