Mikil sorg ríkir á Kanaríeyjum þessa stundina eftir að þrír létust og sextán slösuðust í umferðarslysum um helgina en spænskir fjölmiðlar hafa greint frá slysunum. Öll banaslysin urðu á Tenerife og Gran Canaria og eru nokkrir hinna slösuðu í lífshættulegu ástandi.
Fyrsta banaslysið varð síðdegis á laugardag á TF-5 þjóðveginum á Tenerife. Þar lést 43 ára kona eftir að bifreið hennar fór út af veginum og valt. Sjúkralið reyndi endurlífgun á vettvangi án árangurs. Þrír aðrir farþegar í bílnum hlutu minniháttar meiðsli.
Síðar sama kvöld lést maður í Las Palmas á Gran Canaria eftir að hafa orðið fyrir bifreið á Avenida Marítima.
Alvarleg slys urðu einnig snemma á sunnudagsmorgni. Á GC-1 vegnum nálægt Juan Grande í sveitarfélaginu San Bartolomé de Tirajana rákust tveir bílar saman. Báðar bifreiðarnar ultu og önnur þeirra stóð í ljósum logum. 35 ára kona lést á vettvangi. Þrír aðrir hlutu minniháttar meiðsli og voru fluttir á sjúkrahús.
Annað stórt slys varð á laugardag í La Matanza de Acentejo á Tenerife. Þar rákust tveir bílar saman á TF-217 veginum og lentu á tveimur gangandi vegfarendum. 76 ára ökumaður fór í hjartastopp og var fluttur á La Candelaria-sjúkrahúsið í lífshættulegu ástandi.
Á sunnudagsmorgni slösuðust þrír þegar bíll þeirra endaði á vegg á Calle Rositen í Santa Cruz de Tenerife. Einn þeirra hlaut alvarlega áverka. Allir þrír voru fluttir á La Candelaria-sjúkrahúsið.


Komment