
Klukkan 19:00 á morgun, föstudaginn 21. mars, verða haldnir tónleikar í Smekkleysu, þar sem hljómsveitirnar Geðbrigði, Dauðyflin og Gaddavír koma fram.
Samtökin No Borders Iceland standa fyrir tónleikunum en í lýsingu á viðburðinum segir:
„Í stað þess að virða réttindi fólks og taka opnum örmum á móti þeim sem leita verndar, er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að feta sömu spor og forverar hennar – með áform um fangabúðir þar sem börn geta verið færð í varðhald af lögreglu. Þetta er kerfisbundið ofbeldi sem við ætlum ekki að sætta okkur við.“
Um er að ræða fyrsta viðburðinn í tónleikaröð samtakanna sem ber heitið Tónleikar gegn landamærum. Tónleikaröðin fer fram annan hvern mánuð og er opin öllum sem vilja standa með fólki á flótta, samkvæmt viðburðalýsingunni á Facebook. Þar er fólk hvatt til þess að koma og eiga kvöldstund þar sem tónlist og aktivismi sameinast.
Miðaverð er 2.500 krónur, eða það sem fólk ræður við að borga en allur ágóði tónleikanna rennur beint til fjölskyldu á flótta sem stendur frammi fyrir brottvísun.
Komment