
Tómas Búi Böðvarsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri á Akureyri, lést á hjúkrunarheimilinu Eir í Reykjavík þann 16. maí síðastliðinn, á 83. aldursári. Hann fæddist á Akureyri 14. nóvember 1942. Akureyri.net sagði frá andlátinu.
Foreldrar hans voru Böðvar Tómasson byggingameistari, frá Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, og Kristín Jóhannesdóttir húsfreyja frá Syðrahvarfi í Skíðadal. Eiginkona hans er Ragnheiður Stefánsdóttir íþróttakennari. Synir þeirra eru Böðvar, framkvæmdastjóri Örugg verkfræðistofu, og Hlynur, fjármálastjóri hjá Demant í Danmörku. Barnabörnin eru sex talsins.
Tómas starfaði sem slökkviliðsstjóri Akureyrarbæjar í tæpa þrjá áratugi og kom víða við í samfélags- og félagsstörfum. Hann gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, meðal annars fyrir Félag slökkviliðsstjóra og Brunamálastofnun ríkisins, og var virkur í vélsleðamennsku og Oddfellow-reglunni.
Útför Tómasar Búa fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi miðvikudaginn 19. júní kl. 15:00.
Komment