
No Borders Iceland tónleikaröðin Tónleikar gegn landamærum heldur næstu tónleika sína miðvikudagskvöldið 6. desember á Prikinu, undir yfirskriftinni Kvöld andspyrnu, samstöðu og tónlistar. Dagskrá hefst klukkan 19 með samveru og umræðum, en tónleikahald hefst formlega klukkan 21. Aðgangur er ókeypis, en gestum er bent á að mælt sé með 2.000 króna frjálsu framlagi.
Viðburðurinn er hluti af reglulegri tónleikaröð sem haldin er annan hvern mánuð og er tileinkuð samstöðu með flóttafólki og andspyrnu gegn landsmæraofbeldi og brottvísunum. Að þessu sinni er sjónum sérstaklega beint að nýlegum áformum ríkisstjórnarinnar um að koma á fót „einangrunarbúðum“ fyrir börn og fullorðið fólk á flótta.
Í lýsingu á viðburðinum segir:
„No Borders Iceland heldur tónleika í mótmælaskyni við áformum
ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um að koma á fót einangrunarbúðum þar
sem lögreglu verður heimilað að færa börn og fullorðna í varðhald fyrir
það eitt að flýja heimili sín.“
Sviðið stíga eftirfarandi listamenn: K.ÓLA, Amor Vincit Omnia og Kyrsa.
Skipuleggjendur segja gesti geta búist við kraftmiklu kvöldi þar sem tónlist og aktívismi sameinast, með öflugum flutningi og „helvíti góðri stemningu“, eins og það er orðað.
Á staðnum verða einnig til sölu glænýir No Borders Iceland bolir, og rennur allur ágóði tónleikaraðarinnar beint í baráttuna gegn landamæraofbeldi og brottvísunum.

Komment