
Ugla Stefánía Kristjönudóttir Jónsdóttir, rithöfundur og trans aðgerðarsinni, gagnrýnir harðlega andstöðu við þjónustu og gistiskýli fyrir heimilislaust fólk og fólk með vímuefnavanda. Í færslu á Facebook segir hún umræðuna oft einkennast af ótta sem eigi sér litla stoð í raunveruleikanum og bendir á rannsóknir sem sýni að slík þjónusta auki hvorki glæpatíðni né óöryggi í nærumhverfi.
Ugla segir eigin reynslu sína sýna hið gagnstæða við það sem haldið er fram í umræðunni
„Nú hef ég búið á allskonar stöðum – meðal annars í grennd við þjónustu og gistiskýli fyrir heimilslaust fólk eða fólk sem glímir við vímuefnavanda. Það olli engum vandamálum, og óttaðist ég aldrei um öryggi mitt,“ skrifar hún og bætir við:
„Fólk í þessum aðstæðum þarfnast hjálpar og þjónustu, ekki tortryggni og andúðar.“
Hún segist skilja að fólk geti fundið fyrir ótta, en leggur áherslu á að slíkur ótti sé oft ekki studdur staðreyndum.
„Auðvitað hef ég skilning á því að fólk verði kannski óttaslegið, en oft á tíðum er sá ótti einmitt bara ótti,“ skrifar Ugla og bendir á að vandamál geti komið upp hvar sem er í samfélaginu.
„Ég hef lent í meiri vandamálum er varðar ofbeldi og glæpi í hverfum þar sem engin slík þjónusta er staðsett.“
Ugla vísar jafnframt til rannsókna sem sýni að áhrif gistiskýla og sambærilegrar þjónustu á glæpatíðni séu lítil sem engin.
„Ef skoðaðar eru rannsóknir á hverfum þar sem skýli og sambærileg þjónusta er til staðar, þá sést að áhrif á glæpatíðni eru lítil sem engin, eða jafnvel lækkar tíðnin,“ segir hún.
Hún telur ástæðuna meðal annars þá að slík svæði séu betur vöktuð og viðbragð hraðara
„Svæðin eru oftar betur vöktuð, virkari viðbragðsaðilar og annað. Þannig að ef rétt er staðið að þeim málum þá er því lítið að óttast, burtséð frá hverskonar þjónusta er í boði.“
Ugla hafnar alfarið þeirri hugmynd að hægt sé að „færa vandann annað“.
„Einhverstaðar verður fólk að fá að vera. Við getum ekki bara sett þessa þjónustu í einhver iðnaðarhverfi, út í sveit eða bara út í skurð,“ skrifar hún og segir slíkar kröfur bæði óraunhæfar og ómannúðlegar.
„Þessi krafa að fólk sem nýti sér þessa þjónustu eigi bara að „vera einhverstaðar annarstaðar“ [er] mjög ómannúðleg. Við erum öll hluti af sama samfélaginu.“
Ugla hvetur til þess að umræðan snúist frekar um lausnir en útilokun.
„Ef fólk hefur virkilega áhyggjur af þessu, þá er það betra að sýna stuðning við svona þjónustu, og setja kröfur á stjórnvöld að taka á þessum málum betur,“ skrifar Ugla og nefnir sérstaklega skaðaminnkandi úrræði.
„Það er til dæmis hægt með skaðaminnkandi úrræðum, þar sem fólki er mætt með hlýju, skilningi og mannúð.“
Hún segir ábyrgðina liggja hjá stjórnvöldum og viðbragðsaðilum að byggja upp traust og gagnsæi.
„Það er hlutverk stjórnvalda og viðbragðsaðila að sjá til þess að rétt sé að þessu staðið, viðeigandi upplýsingum sé komið á framfæri, og byggt upp sé traust og gagnsæi um þessi mál,“ skrifar Ugla að lokum.

Komment