MAST hefur birt á heimasíðu sinni stjórnvaldsákvarðanir Matvælastofnunar í dýravelferðarmálum o.fl. sem voru teknar í ágúst, september og október 2025.
Hægt er að sjá þær hér fyrir neðan
Brotið á velferð hunds
Einstaklingur sem hafði tímabundin umráð yfir hundtík var sektaður um 240.000 kr. fyrir að kippa í taum, traðka með fæti á höfði og sparka að lokum ítrekað í vinstri síðu og búk á tíkinni. Eigandinn féllst á að hundinum væri komið í hendur annarra.
Vörslusvipting á hundi
Umráðamaður hunds var sviptur vörslum á hundinum þar sem hundurinn var illa hirtur og aðstæður á heimili hans ekki ásættanlegar, auk þess sem hundinum var haldið inni. Hundinum var ráðstafað á nýtt heimili.
Brot á lögum um innflutning dýra
Lögregla fjarlægði snák af heimili manns að beiðni Matvælastofnunar. Í framhaldinu kærði stofnunin manninn til lögreglu enda hafði Matvælastofnun ekki heimilað innflutning á dýrinu.
Vörslusvipting á hundum
Umráðamaður tveggja hunda taldist ekki uppfylla skilyrði dýravelferðarlaga um getu, hæfni og ábyrgð. Aðbúnaður hundanna var ófullnægjandi. Hann var sviptur vörslum þeirra og hundunum komið til annarra.
Brotið á velferð hunds
Umráðamaður hunds var sektaður um 270.000 kr. fyrir að draga fram úr hófi að fara með hann til dýralæknis. Hundurinn var að lokum aflífaður.
Brotið á velferð kattar
Umráðamaður var sektaður um 195.000 kr. fyrir að hafa brotið á velferð kattar með vanfóðrun hans, skorti á brynningu og ófullnægjandi almennum aðbúnaði. Áður hafði Matvælastofnun svipt umráðamanninn vörslum kattarins og komið honum í hendur annarra.
Brotið á velferð nautgripa
Nautgripabóndi var sektaður um 520.000 kr. fyrir að brjóta á velferð nautgripa með vanfóðrun þeirra, skorti á brynningu og að draga of lengi að sjá til þess að sjúk eða slösuð dýr fengju tilhlýðilega lækningu eða yrðu aflífuð.
Bóndi sviptur vörslum alls sauðfjár
Sauðfjárbóndi var sviptur vörslum bústofns síns þar sem hann taldist skorta bæði getu, hæfni og ábyrgð til að halda féð. Um var að ræða alvarleg brot á velferð fjárins. Féð var sent í sláturhús.
Vörslusvipting á hundi
Umráðamaður hunds var sviptur vörslum hans í ágúst vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Umráðamaðurinn kærði vörslusviptinguna til atvinnuvegaráðuneytis sem staðfesti vörslusviptinguna í október.


Komment