
Tvær ungar konur voru dæmdar í fangelsi meðal annars fyrir líkamsárásir seint á síðasta ári en málið var rekið í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Konurnar tvær voru ákærðar fyrir líkamsárás í félagi við þekkta ósakhæfa aðila, innandyra á göngugötu í Mjóddinni við í Reykjavík, veist með ofbeldi að konu, þar sem önnur tók hana niður í jörðina, tók um höfuð hennar og andlit og hélt henni niðri, meðan hin lamdi brotaþola í höfuð með krepptum hnefa og kýldi og sparkaði ítrekað í búk hennar. Önnur hindraði för brotaþola með því að toga í úlpu hennar og draga hana niður í jörðina þar sem hún sparkaði í búk brotaþola og hin sparkaði í bak brotaþola, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut marga yfirborðsáverka á höfði og marga yfirborðsáverka á efri útlimunum.
Þá voru þær einnig ákærðar fyrir að hafa valdið skemmdum á Iphone 14 pro, að verðmæti 144.990 kr. og á fatnaði að verðmæti 18.990 kr.
Önnur þeirra var einnig ákærð fyrir tvær aðrar árásir. Þá var hún sögð hafa veist með ofbeldi að konu og slegið hana tvívegis með flötum lófa í andlit og ítrekað með krepptum hnefa í andlit, með þeim afleiðingum að hún hlaut vægt hak og innkýlingu á vinstra nefbeini og væga sveigju á nefi til vinstri. Gerðist þetta í strætisvagni. Þá var hún einnig ákærð fyrir að veist með ofbeldi að konu, og sparkað tvisvar í bak brotaþola og einu sinni aftan á háls hennar en brotaþoli lá á jörðinni, með þeim afleiðingum að hún hlaut marga yfirborðsáverka á höfði, tognun og mar á olnboga og brjóstkassa, tognun á baki og yfirborðsáverka á hálsi.
Þær játuðu brot sín. Sérstaklega er tekið fram í dómnum að konurnar séu ungar og eru þær ekki nafngreindar.
Önnur var dæmd í tveggja mánaða fangelsi en dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára en refsingu hinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Þá þurfa þær að greiða einum brotaþola sínum samtals 800 þúsund krónur.
Komment