
Matvælastofnun (MAST) varar neytendur við neyslu á Himneskum lífrænum þurrkuðum nýrnabaunum sem fyrirtækið Aðföng flytur inn. Ástæðan er að í vörunni fannst varnarefni sem ólöglegt er að nota. Varan hefur verið innkölluð í samráði við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur.
Innkallunin nær eingöngu til tiltekinnar framleiðslulotu. Um er að ræða Himneskar lífrænar nýrnabaunir, þurrkaðar, í 500 gramma umbúðum. Strikamerki vörunnar er 5690350050449 og er „best fyrir“-dagsetning 3. apríl 2027. Lotunúmer vörunnar er 02.10.2025.
Baunirnar voru pakkaðar af Midsona Danmark A/S fyrir Aðföng, sem jafnframt er innflytjandi vörunnar. Varan hefur verið til sölu í verslunum Hagkaupa og Bónuss.
Matvælastofnun hvetur neytendur sem hafa keypt vöruna til að neyta hennar ekki. Þeim er ráðlagt að farga vörunni eða skila henni í þá verslun þar sem hún var keypt, gegn fullri endurgreiðslu.
MAST segir að málið sé tekið alvarlega þar sem um notkun ólöglegs varnarefnis er að ræða og leggur áherslu á mikilvægi þess að neytendur fylgi leiðbeiningum um innköllunina.

Komment