
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á sláandi staðreyndir um hitastigið á Íslandi á síðasta ári.
Veðurfræðingurinn skrifaði færslu á Facebook þar sem hann talar um frétt RÚV um veðurfar í Evrópu árið 2024. Segir hann „sláandi“ að sjá frávikakortið um veðurfarið en þar skeri Ísland sig úr.
„2024: ÍSLAND SKAR SIG ÚR Í HITA
Í fréttum RÚV í dag er fjallað um samantektarskýrslu Kóperníkusarstofnunarinnar um veðurfar í Evrópu 2024. Sláandi er sjá frávikakort hita sem þar er birt og hvernig Ísland sker sig úr sem hálfgerður blár hnöttur úti á miðju Atlantshafinu.“
Bendir hann á að Veðurstofan hafi metið sem svo að síðasta ár hafi verið 0,8 stigi kaldara í heild sinni en áratugina á undan.
„Veðurstofan mat svo að árið 2024 hefði verið 0,8 stigi kaldara í heild sinni frá meðaltali 1991-2020. Það er umtalsvert og jafnframt þar með það kaldasta á öldinni.“
En hvað veldur þessum kulda? Einar er með svör á reiðum höndum:
„Eðlilega spyrja menn sig hverju valdi þessum frávikum?
Hitinn á Íslandi stjórnast yfir lengri tíma að sjávarhitanum umhverfis landið og þannig tengdust gjarnan köld ár hér áður hafískomum og köldum sjó í kjölfarið, einkum fyrir norðan og austan.
En afbrigðilegir vindar um lengri tíma geta líka skýrt veruleg frávik í hitanum. Þannig var það að mestu árið 2024. Staða veðurkerfanna var þá lengst af með þeim hætti að N-átt var algengari en venja er til. Þar með varð líka kaldara. Vegna þessa barst á endanum líka kaldari sjór inn á Norðurmið og áfram suður með Austfjörðum. Þar eimir enn af köldum sjónum og mun gera það eitthvað áfram.“
Og veðurfræðingurinn er ekki búinn með útskýringarnar:
„Frávikakortin eru gerð með endurgreiningagögnum frá NCEP (Bandríska Alríkisveðurstofan). Á því fyrra kemur fram áberandi háloftalægðardrag yfir Íslandi að meðaltali 2024. Háloftadragið á síðan þátt í lágþrýsfrávikinu í loftþrýstingi fyrir austan og norðaustan land. Þar með tíðari N-átt. Það sem þessi kort sýna verr eða ekki, er suðlægari lega meðal-lægðabrautarinnar á Atlandahafi. Þar með barst sjaldnar hlýtt og rakt loft suðlægrar ættar og mun rigningasamara var í Vestur-Evrópu af þeim sökum.
Allt hangir þetta saman og skýringa má hugsanlega leita í miklum frávikum sem einnig komu fram í N-Kyrrahafi 2024.“
Komment