
Baráttukonan Virginia Guiffre er látin.
Fjölskylda Virginiu Giuffre, sem sakaði Jeffrey Epstein og Andrés prins um kynferðisofbeldi, hefur birt tilfinningaþrungna yfirlýsingu þar sem hún minnist hennar sem „ósveigjanlegrar baráttukonu“ eftir að hún svipti sig lífi.
Virginia, sem var 41 árs, var ein af háværustu gagnrýnendum Epstein og fyrrverandi kærustu hans, Ghislaine Maxwell. Hún sakaði þau um að hafa dregið sig inn í mansalsnet og að þau hefðu komið henni til Andrésar prins þegar hún var 17 ára, ásökun sem hann hefur ávallt neitað.
Giuffre lætur eftir sig þrjár dætur en hún stóð í skilnaði við eiginmann sinn til 22 ára.

Hún lést eftir að hafa svipt sig lífi á býli sínu í Vestur-Ástralíu. Í tilkynningu frá fjölskyldunni kemur fram að hún hafi verið „ljósið sem gaf svo mörgum þolendum von“ frá því hún steig fyrst fram og krafðist refsiaðgerða gegn Epstein.
„Með hjörtun í molum tilkynnum við að Virginia lést í gærkvöldi á býli sínu í Vestur-Ástralíu,“ segir í yfirlýsingunni. „Hún tók eigið líf eftir að hafa verið ævilangt fórnarlamb kynferðisofbeldis og mansals.“
Virginia, sem ólst upp í Flórída, var fórnarlamb Epsteins frá því hún var unglingur. Ofbeldið stóð yfir í þrjú ár, frá 1999 til 2003. Epstein fannst látinn í fangelsi í New York árið 2019, áður en hann gat staðið frammi fyrir rétti.
Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.
Komment