
Karlmaður hefur verið dæmdur í fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot í nánu sambandi gagnvart föður sínum.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa slegið föður sinn með opnum lófa. Þá var hann ákærður fyrir að hafa sest ofan á hann og vafið laki um höfuð hans. Einnig var hann ákærður fyrir að hafa slegið föður sinn í tvö skipti með lampaskermi í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut mar á augnloki og augnsvæði og sár á augabrúnasvæði.
Þá var maðurinn sömuleiðis ákærður fyrir að hóta föður sínum en hótanirnar náðust á hljóðupptöku. Að lokum var hann ákærður fyrir að brjóta nálgunarbann.
Hótanirnar
„Ég stúta honum. Ef hann drullar sér ekki niður eftir og reddar restinni, þá ber ég hann. Ég stúta honum. Ég stúta þér sko.“
„Upp í Spöng að kaupa bjór og taka út í Arion banka. Maðurinn sem ætlaði niður á Suðurlandsbraut að taka út pening. Ef þú ferð ekki niður eftir fokking 10 mínútur, þá ber ég þig í stöppu. Ég tek tímann.“
Í dómnum er sérstaklega tekið fram að maðurinn sé haldinn áfengissýki og fjölfíkn.
„Hann hafi verið greindur með athyglisbrest með ofvirkni og sé haldinn persónuleikaröskun. Hann hafi glímt við alvarlegan fíknisjúkdóm og hvatvísi frá því snemma á ævinni. Hann hafi sýnt af sér andfélagslega hegðun með endurteknu ofbeldi. Fíkn hans hafi verið samfelld og mikil frá unglingsárum og hann hafi ítrekað farið í meðferð. Hann hafi sýnt af sér erfiða og ógnandi hegðun sem hafi bitnað mikið á foreldrum hans og virðist ekki hafa sýnt mikla eftirsjá vegna þessarar hegðunar. Honum finnist sem faðir hans hafi á sinn hátt átt þetta skilið og þurfi hann að halda aftur af sér í reiði sinni gagnvart föður sínum. Ákærða hafi gengið illa í skóla námslega en vel í íþróttum. Miðað við námslegan framgang megi ætla að greind sé í lægri kanti og samræmist það orðfæri í viðtölum nú. Þá hafi hann einnig orðið fyrir höfuðhöggum, auk þess sem hann hafi neytt mikils magns vímuefna af ýmsu tagi. Þetta sé til þess fallið að skerða dómgreind hans og innsæi,“ stendur meðal annars í dómnum.
Karlmaðurinn játaði brot sín og á hann að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2011.
Hann var dæmdur í átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi.
Komment